Erlent

Biden fær nýjan starfsmannastjóra

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeff Zients og Joe Biden í bakgrunni.
Jeff Zients og Joe Biden í bakgrunni. AP/Susan Walsh

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að Jeff Zients verður nýr starfsmannastjóri Hvíta hússins. Hann mun taka við af Ron Klain, sem hefur lengi starfað með Biden. Starfsmannavelta hefur verið tiltölulega lítil í Hvíta húsinu síðustu tvö ár.

Zients hefur mikla reynslu af opinberum störfum vestanhafs og leiddi meðal annars viðbrögð ríkisstjórnar Bidens við faraldri Covid-19.

Í yfirlýsingu sem hann sendi út í dag þakkar Biden Klain fyrir samstarf þeirra og segir þá hafa gengið gegnum ýmislegt síðustu 36 ár. Hann hafi verið fyrsta val forsetans til að taka við embætti starfsmannastjóra og saman hafi þeir náð miklum árangri.

Klain mun láta af störfum í næstu viku en fjölmiðlar vestanhafs sögðu frá því í síðustu viku að hann væri að segja upp. Þá kom meðal annars fram að hann hafi byrjað að velta vistaskiptum fyrir sér eftir síðustu þingkosningar. Vinnuálagið hafi verið mjög mikið í hvíta húsinu.

Biden segir mikilvægt að fá hæfan mann í stað Klain og þar sé Zients kjörinn. Hann hafi tæklað einhver stærstu málefnin í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Hann hafi til að mynda séð um endurbætur á skráningarkerfi opinberra sjúkratrygginga í forsetatíð Baracks Obama en opnun þess kerfis var mikið klúður á sínum tíma.

Forsetinn segist sannfærður um að með Zients sér við hlið muni þeir halda áfram að berjast fyrir almenning í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×