Tónlist

Tóku lagið í flug­vélinni og dreymir nú um að halda tón­leika á Ís­landi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Jessica segir lífreynsluna hafa verið draumi líkasta.
Jessica segir lífreynsluna hafa verið draumi líkasta. Aðsent

Kanadíska tríóið Jessica Pearson and the East Wind vakti mikla athygli hér á landi á dögunum fyrir það að blása til tónleika um borð í Icelandair flugvél. Farþegar vélarinnar voru fastir um borð vegna veðurs og hvatti áhöfnin hljómsveitina til að taka nokkur lög.

Bútur af flutningnum náðist á myndband og hefur vakið mikla lukku hjá netverjum.

Vísir sló á þráðinn til Jessicu, söngkonu og gítarleikara sveitarinnar og spjallaði við hana um athyglina frá Íslandi.

Hún segir sveitina hafa verið agndofa yfir athyglinni sem flutningurinn fékk en tillaga þeirra um að spila fyrir farþega vélarinnar var grín af þeirra hálfu í fyrstu en þær létu vita af því að þetta væri möguleiki.

„Ég kom þarna aftur í og spurði þær hvort það væri ekki einhver hljómsveit hérna um borð. Þær spruttu upp og við fórum eitthvað að spjalla. Þá segði ég þeim bara að kýla á þetta. Það var bara fínt að fá eitthvað til að létta andann um borð,“ sagði Óskar Tryggvi Svavarsson, flugstjóri í samtali við Vísi um atvikið.

Hljómsveitin ætlaði sér að millilenda á Íslandi í stutta stund á leið sinni á þjóðlagasýningu á Írlandi. Þær höfðu aldrei komið til Íslands áður en stormurinn stöðvaði flugumferð og þær þurftu að gista hér eina nótt.

Jessica viðurkennir þó að vegna þess hve svefnvana þær voru allar muni þær lítið eftir gistingunni en þegar vélin lenti á Íslandi höfðu þær verði vakandi og á ferðalagi í um 48 klukkustundir.

Vissu ekkert fyrr en áhöfnin benti þeim á fréttaflutninginn

„Daginn eftir þegar við fórum um borð í vélina til Írlands vorum við spurðar hvort við værum hljómsveitin. Meðlimur úr áhöfninni sýndi okkur svo að við hefðum verið í fréttum. Við vorum gáttaðar. Þetta eru bestu fréttir sem við höfum fengið svona snemma morguns,“ segir Jessica.

Aðspurð hvort veðrið og biðin hafi þau áhrif að sveitin vilji ekki koma aftur til landsins segir hún svo ekki vera. Þær séu vanar öllu verandi frá Kanada. Þó fannst þeim rokið magnað.

Tríóið hefur komið fram á hinum ýmsu vettvöngum en þó aldrei í flugvél. Aðsent

„Við viljum koma aftur eins fljótt og hægt er. Þetta hefur kannski sýnt okkur að við ættum ekki að millilenda um vetur en hefur alls ekki ýtt okkur frá því að koma aftur. [...] Jafnvel þó við höfum verið þarna í tíu tíma voru þetta frábærir tíu tímar, áhöfnin stóð sig svo vel,“ segir Jessica.

Hún segir upplifunina vera sögu til næsta bæjar.

„Þetta var draumur sem rættist sem mig hafði samt aldrei dreymt. Þetta var töff lífsreynsla sem ég held að mjög fátt tónlistarfólk hafi upplifað.“

Hún segir sveitina trúa á og leita að merkjum frá alheiminum en ein þeirra hafi fundið pening á jörðinni í byrjun ferðarinnar. Við létta leit að merkingu fundarins kom fram að búast mætti við breytingum á áætlunum.

„Það fór ekkert eins og áætlað var en það kom svo margt frábært út frá því,“ segir Jessica hlæjandi.

Spila vonandi á Íslandi í bráð

Þegar möguleikinn á því að halda tónleika á Íslandi er borinn upp er augljóst að sveitin hefur mikinn áhuga á að koma fram hér á landi.

„Ég myndi gjörsamlega elska að spila á Íslandi. Við höfum verið að ræða það síðan þetta gerðist allt saman. Markmiðið okkar er að gera það sem fyrst,“ segir Jessica og bætir því við að það væri frábært að fá að koma fram fyrir Íslendinga án þess að vera svefnvana.

Sveitin gaf út plötuna ,,On the line" snemma á síðasta ári. Aðsent

„Fyrir mér snýst tónlist um fólk og sambönd. Það að geta átt þessa stund með farþegunum og geta lífgað aðeins upp á daginn þeirra með tónlistinni okkar var mjög þýðingarmikið fyrir okkur.“

Aðspurð hvað sé næst á dagskrá hjá sveitinni segir hún undirbúning fyrir nýja plötu standa yfir.

„Ég er að skrifa lög fyrir nýja plötu núna, það eru nokkur tilbúin nú þegar. Við erum að klára að skrifa lögin og undirbúa framleiðsluferlið. Það verða klárlega lög innblásin af þessari lífsreynslu á plötunni,“ segir Jessica.

Hún er sammála því að það sé í raun nauðsyn fyrir sveitina að halda útgáfutónleika hér á landi í ljósi atburða.

„Ef Ísland vill taka á móti okkur myndum við glaðar gera það,“ segir hún og að þessi lífsreynsla hafi kennt henni að allt geti gerst.

Hlusta má á plötu sveitarinnar, „On the Line“ hér að ofan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.