Enski boltinn

Bregðast við löngum samningum Chelsea og breyta fjár­hags­reglunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mykhailo Mudryk gekk í raðir Chelsea fyrir 89 milljónir punda, en þar sem hann skrifaði undir átta og hálfs árs langan samning getur Chelsea dreift kostnaðinum og metið hann á ellefu milljónir á ári.
Mykhailo Mudryk gekk í raðir Chelsea fyrir 89 milljónir punda, en þar sem hann skrifaði undir átta og hálfs árs langan samning getur Chelsea dreift kostnaðinum og metið hann á ellefu milljónir á ári. Laurence Griffiths/Getty Images

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA mun bregðast við löngum samningum enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea með því að gera breytingu á fjárhagsreglum sambandsins, FFP (e. Financial Fair Play).

Chelsea hefur eytt gríðarlegum fjármunum í nýja leikmenn á undanförnum mánuðum og margir þeirra skrifa undir virkilega langa samninga. Þannig getur félagið dreift kostnaðinum yfir samningstíman þegar liðið skilar inn ársreikningum sínum.

Nýjasta dæmið um þetta er samningur félagsins við úkraínska leikmanninn Mykhailo Mudryk. Mudrik kom til félagsins frá Shakhtar Donetsk fyrr í þessum mánuði á 89 milljónir punda, en þar sem hann skrifaði undir átta og hálfs árs langan samning er hann aðeins metinn á ellefu milljónir á ári á meðan samningstímanum stendur.

UEFA ætlar sér því að setja á laggirnar fimm ára reglu sem felur í sér að ekki megi dreifa kostnaðinum á meira en fimm ár. Félög munu þó enn geta gert lengri samninga við leikmenn á grundvelli breskra laga, en eins og áður segir geta þau ekki dreift kostnaðinum á allan samningstímann ef hann er lengri en fimm ár.

Reglubreytingin mun taka gildi í sumar og mun ekki hafa áhrif á samninga sem nú þegar hafa verið gerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×