Erlent

Hipkins tekur við af Ardern

Árni Sæberg skrifar
Chris Hipkins verður næsti forsætisráðherra Nýja-Sjálands
Chris Hipkins verður næsti forsætisráðherra Nýja-Sjálands EPA-EFE/BEN MCKAY

Nýsjálenski þingmaðurinn Chris Hipkins gefur einn kost á sér í formannsstöðu nýsjálenska Verkamannaflokksins og mun því að öllum líkindum taka við sem forsætisráðherra á mánudag af Jacindu Ardern, sem tilkynnti afsögn sína í gær.

Ardern kom Nýsjálendingum og öðrum að óvörum í gær þegar hún tilkynnti að hún hefði ákveðið að segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Jafnaðarflokksins.

Hún mun láta af störfum ekki seinna en 7. febrúar og segist hreinlega ekki hafa orku til að sinna starfinu lengur.

Eftirmaður hennar í báðum stöðum verður að öllum líkindum þingmaðurinn og ráðherrann Chris Hipkins. Hann gegnir stöðu ráðherra lögreglumála, menntamála og almannaþágumála. Hann var áður ráðherra Covid-19-mála. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Það eina sem stendur í vegi fyrir embættistöku Hipkins er atkvæðagreiðsla þingmanna Verkamannaflokksins um formannsembættið. Hún fer fram í þinginu á mánudag.

Svo gæti þó farið að Chris verði ekki lengi í paradís en þingkosningar verða haldnar í Nýja-Sjálandi í október. 

Ardern sagði á blaðamannafundi í gær að hún efist ekki um að Verkamannaflokkurinn muni halda embætti forsætisráðherra en að henni þætti rétt að nýr leiðtogi leiddi flokkinn í gegnum erfiðar kosningar í skugga verðbólgu og aukins ójafnaðar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×