Menning

Gunna Tryggva færir Sel­fyssingum veg­lega gjöf með skýrum skil­yrðum

Atli Ísleifsson skrifar
Verkið sem um ræðir heitir Kafarinn eftir myndlistarkonuna Gunnu Tryggva.
Verkið sem um ræðir heitir Kafarinn eftir myndlistarkonuna Gunnu Tryggva. Gunna Tryggva

Myndlistarkonan Guðrún Arndís Tryggvadóttir hefur fært sveitarfélaginu Árborg málverkið Kafarann að gjöf og óskar þess að verkið verði sett upp á gangi sundlaugarbyggingar Sundhallar Selfoss. Bæjarráð Árborgar hefur ákveðið að þiggja gjöfina – sem sögð er „höfðingleg“ – og gangast við þeim skilyrðum sem Guðrún Arndís setur. Verkið muni sóma sér vel í Sundhöll Selfoss.

Sagt er frá málinu í fundargerð bæjarráðs en fundað var í morgun. Þar kemur fram að bæjarráði hafi borist erindi frá Gunnu Tryggva í upphafi árs þar sem hún býður sveitarfélaginu verkið. Er þess óskað að verkið Kafarinn verði sett upp í gangi byggingar Sundhallarinnar sem snúi út að útilauginni og „fái lýsingu sem geri það betur sýnilegt í gegnum gluggarúðurnar“.

Inngangur Sundhallar Selfoss. Vísir/Magnús Hlynur

Verkið sem um ræðir er í raun eitt verk málað með olíu á tvo hörstriga sem hvor um sig er 150 sentimetrar á breidd og tveir metrar á hæð.

„Ef færa á verkið annað, af einhverri ástæðu, á einhverjum tímapunkti, áskilar höfundur/afkomendur rétt til að fá verkið til baka, gjöfinni verði rift enda sé ástæða gjafarinnar sú að sundlaugargestir fái notið þess við heimsókn í laugina.

Myndlistarkonan Gunna Tryggva.Facebook

Höfundur óskar ennfremur eftir að á veggnum nálægt verkinu verði merking sem segi frá höfundi, titli og að um gjöf sé að ræða. Höfundur mun gjarnan hanna slíka merkingu,“ segir í erindi myndlistarkonuna.

Í bókun bæjarráð kemur fram að Gunnu sé þakkað fyrir höfðinglega gjöf sem muni sóma sér vel í Sundhöll Selfoss. „Bæjarráð gengst að skilmálum gjafagerningsins með þeim fyrirvara að sveitarfélagið getur ekki ábyrgst verkið í almenningsrými í sundlauginni, þ.e. tryggt það sérstaklega fyrir skemmdum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×