Handbolti

Sigfús hæstánægður með Elliða: „Ég var rosa hrifinn af honum í leiknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði skorar eitt fjögurra marka sinna gegn Portúgal.
Elliði skorar eitt fjögurra marka sinna gegn Portúgal. vísir/vilhelm

Eftir að hafa gagnrýnt Elliða Snæ Viðarsson fyrir frammistöðu hans í leikjunum gegn Þýskalandi var Sigfús Sigurðsson hæstánægður með Eyjamanninn eftir sigurinn á Portúgal.

Ísland hóf heimsmeistaramótið 2023 með því að vinna Portúgal, 30-26, í hörkuleik í gærkvöldi.

Margir lögðu sín lóð á vogarskálarnar, meðal annars Elliði sem skoraði fjögur mörk og varðist vel.

Sigfús var sáttur með Elliða og tiltók það sérstaklega er hann var beðinn um að nefna þrjá jákvæða þætti í leik Íslands í Handkastinu.

„Ég var rosa hrifinn af Elliða í leiknum. Hann steig upp og spilaði mjög vel. Hann blokkeraði, bjó til færi og lét til sín taka á línunni. Ég var ánægður með hann. Hann var virkilega flottur,“ sagði Sigfús.

Hann tók einnig frammistöðu Björgvins Páls Gústavssonar út fyrir sviga og þá var Sigfús ánægður með hvernig íslenska liðið lagaði það sem misfórst í fyrri hálfleik í þeim seinni.

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×