Erlent

Fleiri leyniskjöl finnast hjá Biden

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Málið þykir afar vandræðalegt fyrir Joe Biden.
Málið þykir afar vandræðalegt fyrir Joe Biden. AP/Patrick Semansky

Enn syrtir í álinn hjá Joe Biden Bandaríkjaforseta eftir að fleiri skjöl finnast í hans persónulegu fórum sem áttu að vera háleynileg og aðeins geymd hjá viðeigandi stofnunum.

 Fyrsti skjalabunkinn fannst í nóvember í skrifstofum á vegum Biden í grennd við Hvíta húsið en ekki fréttist af málinu fyrr en í síðustu viku. Þar var um að ræða skýrslur frá leyniþjónustunni og efni um Úkraínu, Íran og Bretland sem átti að fara með með ítrustu leynd.

Nú er kominn í ljós annar slíkur skjalabunki sem fannst á öðrum stað að því er breska ríkisútvarpið greinir frá. Ekki er ljóst hvað er að finna í þeim skjölum og Hvíta húsið hefur ekki tjáð sig um málið hingað til. Biden tjáði sig um fyrri skjalabunkann í gær þar sem hann sagðist vera hissa á fundinum og að hans fólk væri að reyna að varpa ljósi á málið í fullu samstarfi við dómsmálaráðuneytið.

Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir Biden og Demókrata því þeir höfðu gert harða hríð að Donald Trump fyrrverandi forseta sem einnig sat á skjölum sem hann átti ekki að hafa undir höndum. Meðal annars gerði alríkislögreglan húsleit á heimili forsetans í Flórída og gerði þar upptæk um tíu þúsund skjöl af ýmsu tagi, sum háleynileg.


Tengdar fréttir

Leyn­i­leg skjöl fund­ust á eink­a­skrif­stof­u Bid­ens

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna rannsakar nú hvernig skjöl, sem talin eru vera leynileg, enduðu á gamalli skrifstofu Joes Bidens, forseta Bandaríkjanna. Skjölin fundust þann 2. nóvember, skömmu fyrir þingkosningar, en fundurinn varð ekki opinber fyrr en í gær og þá af fjölmiðlum vestanhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×