Viðskipti innlent

Auður Hrefna fylgist með á­byrgum við­skipta­háttum á Ís­landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Auður Hrefna Guðmundsdóttir er nýr svæðisstjóri fyrir Ísland hjá Samtökum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti.
Auður Hrefna Guðmundsdóttir er nýr svæðisstjóri fyrir Ísland hjá Samtökum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti. Aðsend

Samtök Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti, UN Global Compact, hafa ráðið Auði Hrefnu Guðmundsdóttur sem svæðisstjóra fyrir Ísland. Auður Hrefna starfaði áður hjá Landsbankanum á sviði fræðslu og þjálfunar og þar áður hjá Háskólanum í Reykjavík og Opna háskólanum. Auður Hrefna er með ML gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands.

Í tilkynningu segir að ráðning svæðisstjóra fyrir Ísland sé liður í því að auka áherslu á starfsemi UN Global Compact hérlendis, en íslensk fyrirtæki hafa tekið þátt í starfi UNGC frá árinu 2006.

„Samtök atvinnulífsins hafa verið tengiliður UN Global Compact hér á landi síðustu ár og unnið metnaðarfullt og einfaldlega frábært starf. Á þessum tíma hafa fyrirtæki sýnt mikinn áhuga á starfi samtakanna og hefur þátttakendum fjölgað jafnt og þétt. Í dag eru 28 íslensk fyrirtæki aðilar að Global Compact,“ segir Auður Hrefna.

Með aukinni áherslu á starfsemi UNGC á Íslandi opnist fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf. 

„UN Global Compact er stærsta sjálfbærniframtak í heimi og öflug leið til að sameina fyrirtæki í því að stunda ábyrg viðskipti og leggja sitt að mörkum í átt að sjálfbærum heimi. Það er tímabært að íslensk fyrirtæki geti nýtt til fulls þekkingu, gögn og aðferðir sem samtökin hafa þróað á undanförnum árum. Hér má m.a. nefna akademíu UN Global Compact, ýmsa viðburði og þá er alþjóðlegt tengslanet samtakanna afar gagnlegt.“

Heimurinn standi á tímamótum og án aðkomu atvinnulífs að markmiðum um sjálfbærni verði litlum árangri náð. 

„Við verðum að gera þetta saman og UN Global Compact er svo sannarlega góður vettvangur til að skerpa á sjálfbærnivegferð fyrirtækja,“ segir Auður Hrefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×