Enski boltinn

Allslaus Alli sem enginn vill

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alli hefur fáan heillað í Tyrklandi.
Alli hefur fáan heillað í Tyrklandi. BSR Agency/Getty Images

Tyrkneska félagið Besiktas er sagt vilja losna við enska miðjumanninn Dele Alli samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. Hann er á láni frá Everton sem hefur enn minni áhuga á að endurheimta kappann.

Alli spratt fram á sjónarsviðið með MK Dons í C-deildinni á Englandi 17 ára gamall. Aðeins 19 ára var hann orðinn fastamaður hjá stórliði Tottenham hvar hann skoraði 18 deildarmörk tímabilið 2016-17.

Það hefur hins vegar hratt fjarað undan Alli frá árinu 2019, en það ár spilaði hann síðast landsleik, og þá fór hlutverk hans hjá Tottenham sífellt minnkandi.

Hann yfirgaf félagið til að ganga til liðs við Everton í janúar síðastliðnum og fór þá frítt, en Everton var skuldbundið til að greiða háar árangurstengdar greiðslur ef Alli kæmi ferlinum aftur á réttan kjöl.

Alli spilaði 13 leiki fyrir Everton og skoraði ekki mark áður en hann var lánaður til Besiktas í haust. Þar hefur hann aðeins spilað sjö deildarleiki og skorað eitt mark og hefur ekki heillað margan í Istanbúl.

Félagið er nú sagt vilja losa sig við Alli og slíta lánssamningnum við Everton. Þeir bláklæddu hafa engan áhuga á að endurheimta kappann þrátt fyrir mikil vandræði liðsins í deildinni.

Alli er enn aðeins 26 ára gamall og verður áhugavert að sjá hvort hann eigi eitthvað eftir á tanknum til að snúa hlutum sér í hag á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×