Erlent

Fyrsta bóluefnið fyrir býflugur fær leyfi í Bandaríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandarískur matvælaiðnaður er afar háður býflugunni.
Bandarískur matvælaiðnaður er afar háður býflugunni. Getty/Anadolu Agency/David Talukdar

Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur gefið út leyfi vegna bóluefnis líftæknifyrirtækisins Dalan Animal Health, sem er það fyrsta í heiminum sem er ætlað býflugum.

Annette Kleiser, framkvæmdastjóri Dalan, segir um að ræða vatnaskil þegar kemur að verndun býflugunnar, sem er gríðarlega nauðsynleg í matvælaframleiðslu.

Markmiðið með bóluefninu er að koma í veg fyrir útbreiðslu býflugnapestar (e. foulbrood), sem leggst á og drepur heilu búin. Engin lækning er til við sjúkdómnum, sem hefur fundist í einu af fjórum búum sums staðar í Bandaríkjunum.

Þegar sjúkdómurinn kemur upp þarf að eyða og brenna sýktum búum og nota sýklalyf til að hemja útbreiðslu hans.

Bóluefnið verður sett í fæðuna sem vinnuflugurnar gefa drottningunni. Þannig mun það berast í eggjastokka drottningarinnar og í allar þær lirfur sem hún eignast. Rannsóknir benda til að þetta muni draga úr dauðsföllum af völdum pestarinnar.

Samkvæmt forsvarsmönnum Dalan standa vonir til að rannsóknirnar að baki bóluefninu muni nýtast til að þróa önnur bóluefni, til að mynda gegn annarri tegund býflugnapestar sem er útbreidd í Evrópu.

Miklar áhyggjur eru uppi vegna slæmrar afkomu býflugunnar í Bandaríkjunum, þar sem henni stafar meðal annars ógn af notkun eiturefna og loftslagsbreytingum. Heilbrigð bú eru afar verðmæt og býflugnaþjófnaður vandamál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×