Fótbolti

Fyrrum Eyja­stelpan Lacasse eftir­sótt af stærstu liðum Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cloé Lacasse fagnar einu af mörkum sínum í Meistaradeild Evrópu.
Cloé Lacasse fagnar einu af mörkum sínum í Meistaradeild Evrópu. Twitter@DAZNFootball

Cloé Lacasse lék með ÍBV í efstu deild kvenna í fótbolta frá 2015 til 2019. Hún spilar nú með Benfica í Portúgal en það stefnir í að hún færi sig um set á nýju ári. Hún er orðuð við nokkur af stærstu liðum álfunnar.

Lacasse, sem verður þrítug næsta sumar, kemur frá Kanada en gekk í raðir ÍBV fyrir tímabilið 2015 eftir farsælan feril í bandaríska háskólaboltanum. Hún gjörsamlega raðaði inn mörkum hér á landi og skoraði 54 mörk í 79 leikjum í efstu deild. Alls skoraði hún 73 mörk í 113 KSÍ leikjum fyrir ÍBV.

Eftir góð ár í Vestmannaeyjum fór Cloé til Benfica í Portúgal og þar hefur hún haldið áfram að blómstra. Hún hefur raðað inn mörkum ásamt því að vinna alla titlana sem í boði eru þar í landi.

Þá hefur hún staðið sig frábærlega í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð. Skoraði hún fimm mörk í sex leikjum en Benfica var í riðli með Íslendingaliði Bayern München, stórliði Barcelona og Svíþjóðarmeisturum Rosengård.

Árangur Lacasse með Benfica hefur vakið athygli stórliða Evrópu. Amanda Zaza, íþróttablaðamaður fyrir sænska miðilinn Fotballskanalen, segir að Lacasse sé á á óskalista Arsenal en hollenska markadrottningin Vivianne Miedema sleit krossbönd nýverið.

Þá bendir Orri Rafn Sigurðarson, lýsandi hjá Viaplay, á að bæði Bayern og París Saint-Germain séu bæði að íhuga að fá hana í sínar raðir.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir gekk í raðir PSG fyrr á þessu ári en hefur lítið fengið að spila síðan þá. Spurning er hvaða áhrif koma Lacasse gæti haft fyrir stöðu hennar hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×