Sport

Segir Ólympíu­nefndinni stýrt úr banda­ríska utan­ríkis­ráðu­neytinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thomas Bach (t.v.) forseti IOC ásamt Chernysenko við opnunarhátíð Vetrarleikanna í Sochi 2014.
Thomas Bach (t.v.) forseti IOC ásamt Chernysenko við opnunarhátíð Vetrarleikanna í Sochi 2014. Getty Images

Dmitry Chernyshenko, varaforsætisráðherra Rússlands, segir Alþjóðaólympíunefndina vera undir beinum áhrifum bandarískra stjórnvalda. Rússneskir íþróttamenn sæta banni frá nefndinni vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Bæði Rússland og Hvíta-Rússland hafa að mestu verið útilokið frá alþjóðlegri íþróttakeppni eftir að innrásin í Úkraínu hófst snemma árs. Alþjóðaólympíunefndin, IOC, setti þar tóninn og flestöll alþjóðaleg íþróttasambönd, til að mynda FIFA, hafa fylgt ráðleggingum IOC með því að banna Rússa alfarið frá keppnum sínum.

Fulltrúar IOC hafa kallað þetta verndarráðstafanir+ en skoða nú þann möguleika að íþróttamenn frá báðum þjóðum fái að spila undir hlutlausum fána á íþróttaviðburðum í aðdraganda Ólympíuleikanna í París 2024. Fjölmargir Rússar hafa síðustu ár leikið undir hlutlausum fána vegna banns Rússlands í kjölfar lyfjahneykslis í ríkinu.

Chernysenko er ósáttur við aðgerðir nefndarinnar og segir hana vera höll undir bandarísk yfirvöld.

„Því miður er IOC ekki sjálfstæð stofnun, segir Chernysenko. Frá okkar bæjardyrum séð er hún undir beinum áhrifum bandaríska utanríkisráðuneytisins og fer algjörlega eftir þeirra skipunum,“ sagði Chernysenko í samtali við rússneska ríkismiðilinn Russia-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×