Sport

Ingibjörg og Matthías Örn pílufólk ársins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Matthías Örn Friðriksson og Ingibjörg Magnúsdóttir eru pílukastarar Íslands árið 2022.
Matthías Örn Friðriksson og Ingibjörg Magnúsdóttir eru pílukastarar Íslands árið 2022. ÍPS

Ingibjörg Magnúsdóttir og Matthías Örn Friðriksson eru pílukastarar ársins hjá Íslenska pílukastssambandinu.

Ingibjörg leikur fyrir Pílukastfélag Hafnarfjarðar. Hún varð Íslandsmeistari kvenna í pílukasti, bæði í 501 og krikketi, auk þess að fagna sigri í tveimur umferðum í Novis-deild kvenna og í bronsdeild karla. Þá vann hún FitnessSport-meistaramótið í tvímenningi í bæði 501 og 301.

Hún var þá valin í landsliðið og keppti fyrir Íslands hönd á bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu.

Matthías Örn leikur fyrir Pílukastfélag Grindavíkur og varð Íslandsmeistari í karlaflokki. Líkt og Ingibjörg vann hann tvær umferðir í Gulldeild Novis og vann í tvímenningi í 501 á FitnessSport-meistaramótinu. Einnig spilaði hann fyrir landslið Íslands á Norðurlandamótinu.

Matthías varð þá efsti Íslendingurinn á stigalista Norðurlandamótaraðarinnar og fékk keppnisrétt á stórmóti PDC, fyrstur Íslendinga. Þar mætti hann ríkjandi heimsmeistara Peter Wright, sem féll þó úr leik á yfirstandandi heimsmeistaramóti í gærkvöld. Hann varð þá einnig Íslandsmeistari félagsliða með Grindavíkurliðinu í lok árs.

Nánar á vef ÍPS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×