Innlent

Skoða gjald­töku á öllum bíla­stæðum HÍ

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Á myndinni sést skeifan, næst háskólanum, en þar hefur verið innheimt gjald fyrir bílastæði. Malarplanið, sem stendur fjær, hefur hins vegar staðið endurgjaldslaust til afnota.
Á myndinni sést skeifan, næst háskólanum, en þar hefur verið innheimt gjald fyrir bílastæði. Malarplanið, sem stendur fjær, hefur hins vegar staðið endurgjaldslaust til afnota. Vísir/Vilhelm

Gjaldtaka á bílastæðum Háskóla Íslands er til skoðunar. Nemendur og starfsfólk hafa hingað til fengið að leggja endurgjaldslaust við skólann. Á nýju ári gæti það heyrt sögunni til.

Hingað til hefur almennt aðeins verið rukkað í stæði í „skeifunni,“ sem eru stæðin sem standa við aðalbyggingu skólans, Háskólatorg og svo á bílaplani við Gimla. Skólinn hefur hins vegar yfir um 1.700 bílastæðum að ráða, til dæmis við Hótel sögu og Veröld, hús Vigdísar Finnbogadóttur.

Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskólans, segir að málið verði væntanlega tekið fyrir í háskólaráði eftir áramót.

Hugmyndin ekki „gróðrastarfsemi“

„Málið er að frí bílastæði eru hverfandi í kringum okkur. Reykjavíkurborg er að útvíkka gjaldskyld stæði og stefna að því að setja gjaldskyldu á Tjarnargötuna og Bjarkargötuna. Og svo eru Vísindagarðar búnir að setja gjaldskyldu á stæðin hjá sér og Landspítali er byrjaður að taka gjald fyrir bílastæði þar.“

Þessi þróun ýti bifreiðaeigendum, sem ekki ganga erinda í háskólanum, inn á bílastæði skólans.

„Og til þess að sporna við því þá er hugmyndin ýmist að taka gjald – þó er hugmyndin ekki sú að þetta verði einhver gróðastarfsemi, heldur til að geta stýrt flæðinu inn á svæðið. En hin hugmyndin er líka sú að hreinlega loka stæðunum og bara þeir sem eiga erindi, starfsmenn og nemendur og gestir hafi aðgang. Og aðrir þurfa að greiða,“ segir Kristinn. 

Hann segir að það hafi verið gert í Öskju, húsi skólans sem stendur við Grósku, vegna mikillar aðsóknar í kjölfar uppbyggingar á svæðinu.

Til greina gæti komið að setja upp „lokunarpósta“ við bílastæði háskólans og veita starfsmönnum og nemendum aðgang. Líklegra verði þó að gjaldtaka á bílastæðunum komi til álita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×