Tónlist

Syngur íslenskt lag í erlendri Netflix seríu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Anna Gréta syngur íslenskt lag í Netflix þáttunum First Love.
Anna Gréta syngur íslenskt lag í Netflix þáttunum First Love. Birna Ketilsdóttir Schram

Söngkonan, lagahöfundurinn og píanóleikarinn Anna Gréta flytur íslenska lagið „Hafið syngur“ í japönsku sjónvarpsseríunni First Love sem var frumsýnd á streymisveitunni Netflix í nóvember. Blaðamaður heyrði í henni og fékk að heyra nánar frá verkefninu.

„Ég var beðin um að syngja lagið og semja textann af kollega mínum í Stokkhólmi sem hefur unnið mikið með japönskum framleiðendum,“ segir Anna Gréta um tilkomu þessa verkefnis. Hún ákvað að kýla á það en lagið er spilað í fjórða þætti seríunnar.

„Mér fannst lagið fallegt og ákvað því að slá til og taka þátt. Lagið er búið að fá góð viðbrögð sem er virkilega skemmtilegt. Ég reyndi að hafa textann einfaldan, fullan af stemningu og með smá mystískum fíling.“

Fullur salur í Berlín

Anna Gréta er menntuð í jazz tónlist sem hún segir vera sinn helsta fókus. Hún starfar í Stokkhólmi og á Íslandi og ferðast mikið í tengslum við vinnuna.

Anna Gréta ásamt hljómsveit á tónleikunum í Berlin Philharmonic.Aðsend

„Ég var nýlega með uppselda tónleika í Berlin Philharmonic í Þýskalandi,“ segir hún og bætir við að hún hafi notið hverrar sekúndu af tónleikunum. Hún deildi sviðinu meðal annars með tónskáldinu, söngkonunni og píanóleikaranum Kadri Voorand frá Eistlandi en Anna Gréta hefur löngum verið aðdáandi hennar.

Anna Gréta og Kadri VoorandInstagram @annagretasig

Fuglaskoðun og náttúra

Það er ýmislegt á döfinni hjá Önnu Grétu sem er meðal annars að vinna að næstu plötu og mun eyða tíma í stúdíóinu í janúar, sem hún segist mjög spennt fyrir.

„Minn helsti innblástur í tónlist er náttúran. Það er eitthvað sem ég sæki stöðugt í, krafturinn og orkan, og það hentaði vel í textann fyrir Hafið syngur líka. Mín síðasta plata sótti smá innblástur úr fuglaskoðun en hún heitir Nightjar in the northern Sky, en Nightjar er Náttfari á íslensku, sem er sjaldséður fugl.“

Platan vann í flokknum Plata ársins í Jazz flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022 og Anna Gréta hlaut einnig verðlaun sem Lagahöfundur ársins.

Anna Gréta er nú að undirbúa sína næstu plötu.Birna Ketilsdóttir Schram

Lék Guðríði Þorbjarnardóttur

Meðal verkefna hjá Önnu Grétu er hlaðvarp sem kom út hjá Sveriges Radio, þar sem hún söng, samdi lag og fór með hlutverk landkönnuðarins Guðríðar Þorbjarnardóttur.

„Gustav Skarsgård er sögumaðurinn og þetta er búið að vera mjög vinsælt í Svíþjóð, sem er gaman. Ég hafði aldrei leikið neitt svo var mér allt í einu kastað inn í þetta, að gera alls konar senur á borð við ástarsenur, fæðingu og ég veit ekki hvað. En þetta var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Anna Gréta að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×