Innlent

Búið er að opna veginn um Þrengslin og Grinda­víkur­veg

Árni Sæberg skrifar
Hellisheiði milli Reykjavíkur og Hveragerðis er lokuð en hægt er að komast austur fyrir fjall um Þrengslaveginn.
Hellisheiði milli Reykjavíkur og Hveragerðis er lokuð en hægt er að komast austur fyrir fjall um Þrengslaveginn. Stöð 2/Skjáskot

Víða er enn ófært en Vegagerðin tilkynnti í morgun að búið væri að opna veginn um Þrengslin og Grindavíkurveg. Varað er við mannlausum bifreiðum á hægri akrein Grindavíkurvegar, á tvöfalda kaflanum.

Í tilkynningu á Twittersíðu Vegagerðarinnar varðandi færð á Suðurlandi segir að lokað sé á Hellisheiði, Mosfellsheiði, Suðurstrandarvegi og Krýsuvíkurvegi. Ófært sé á Suðurstrandarveg, Kjósarskarði, í sunnaverðum Hvalfirði og á Nesvegi. Þæfingur, snjóþekja og hálka sé á öðrum leiðum.

Á Vesturlandi er ófært á Brattabrekku, í Álftafirði og um norðanvert Snæfellsnes en þar er unnið að mokstri. Þungfært er út að Hellnum og á Skógarströnd. Þæfingur og jafnvel þungfært er víða í uppsveitum Borgarfjarðar en snjóþekja eða hálka er á öðrum leiðum, að því er segir í tilkynningu.

Annars staðar á landinu hefur ekki verið gripið til lokana en víða er færð þung. Á Vestfjörðum er ófært á Þröskuldum og þæfingur á Dynjandisheiði. Á Norðurlandi er hálka og hálkublettir á flestöllum leiðum og éljagangur víða. Ófært í Almenningum. Á Norðausturlandi er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum. Þungfært er á Tjörnesi en ófært er á Dettifossvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×