Erlent

Búist við ákæru á hendur Trump vegna árasar á þinghúsið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Trump rauf áratugalanga hefð þegar hann neitaði að birta skattskýrslur sínar sem forsetaframbjóðandi árið 2016.
Trump rauf áratugalanga hefð þegar hann neitaði að birta skattskýrslur sínar sem forsetaframbjóðandi árið 2016. AP/Andrew Harnik

Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að þingnefnd, sem rannsakar árásina á þinghúsið 6. janúar, muni leggja til að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, verði ákærður vegna þáttar hans í atlögunni. 

Búist er við skýrslu nefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í næstu viku. Fréttaveitan AP greinir frá því að nefndin muni leggja til að sakamál verði höfðað á hendur Trump. Ákæruvald liggur hins vegar hjá dómsmálaráðuneytinu sem mun taka endanlega ákvörðun um ákæru.

Stuðningsmenn Trump réðust inn í þinghúsið þann 6. janúar 2021, degi áður en staðfesta átti forsetakjör Joe Biden. 

Dómsmálaráðuneytinu er ekki skylt að fylgja ráðleggingum nefndarinnar um ákæru. Trump hefur þvertekið fyrir að hafa átt nokkurn þátt í árásinni. Nefndarmenn eru sagðir ætla að leggja til að Trump verði ákærður fyrir að hafa espað til uppreisnar gegn valdstjórn Bandaríkjanna. 

Síðasti fundur nefndarinnar verður á mánudag. Verða þá greidd atkvæði um tillögu að sakamálaákæru á hendur tilteknum einstaklingum. Nefndin boðaði Trump á fund til að bera vitni um atvik sem leiddu til árásarinnar en Trump hafnaði þeirri beiðni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×