Innlent

Mánaðar­laun Þórs á Nesinu lækka um 200 þúsund á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Þór Sigurgeirsson er bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Þór Sigurgeirsson er bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Vísir/Vilhelm

Mánaðarlaun Þórs Sigurgeirssonar, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, munu lækka um 200 þúsund krónur á næsta ári. Laun bæjarstjórans hafa verið um 1,8 milljónir á ári og fara því í 1,6 milljónir, en laun hans eru þó nokkuð hærri, sé ýmis stjórnarseta og akstursstyrkur talin með. Laun annarra bæjarfulltrúa munu lækka sömuleiðis á næsta ári.

Þetta var ákveðið á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness á miðvikudag. Þar kemur fram að Þór hafi sjálfur haft frumkvæði að tímabundinni lækkun fastra launa bæjarstjóra um 200 þúsund krónur á mánuði fyrir almanaksárið 2023.

„Með því vil ég sýna gott fordæmi til hagræðingar í rekstri bæjarfélagsins,“ segir Þór í bókun sinni.

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti sömuleiðis samhljóða að bæjarfulltrúar myndu taka á sig fimm prósenta launlækkun fyrir setu sína í bæjarstjórn á árinu 2023.

„Ákvörðunin gildir ekki um nefndarlaun, er tímabundin og gildir eingöngu fyrir árið 2023. Með því sýna bæjarfulltrúar gott fordæmi í þeim hagræðingaraðgerðum sem við blasa í rekstri bæjarins,“ segir í bókuninni.

Bæjarstjórn hefur unnið að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 síðustu vikur og mánuði. Áætlunin hefur nú verið samþykkt og felur í sér ýmsar hagræðingaraðgerðir í rekstri sveitarfélagsins. 

„Í því efnahagsástandi sem við búum við í dag er líklega um eina mest krefjandi vinnu við fjárhagsáætlun í sögu bæjarfélagsins,“ segir í bókun Þórs bæjarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×