Fótbolti

Viðar Örn skoraði þegar A­tromitos féll úr leik | Öruggt hjá Herði Björg­vini

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viðar Örn skoraði í kvöld en það dugði skammt.
Viðar Örn skoraði í kvöld en það dugði skammt. Twitter@atromitos1923

Viðar Örn Kjartansson skoraði eina mark Atromitos gegn stórliði Olympiacos í grísku bikarkeppninni í fótbolta í kvöld. Skömmu áður höfðu Hörður Björgvin Magnússon og félagar í Panathinaikos flogið áfram.

Atromito var alltaf að fara eiga erfitt kvöld og lenti liðið snemma undir. Pep Biel, fyrrverandi framherji FC Kaupmannahafnar, kom Olympiacos yfir en Viðar Örn jafnaði aðeins fjórum mínútum síðar. Stefndi í markaleik ef marka mátti upphaf leiksisn en fleiri urðu mörkin þó ekki í fyrri hálfleik og staðan jöfn 1-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Brasilíski bakvörðurinn Marcelo kom Olympiacos yfir eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik og eftir það var aldrei spurning hvort liðið færi áfram. Youssef El Arabi bætti þriðja marki heimaliðsins við og Marcelo bætti við öðru marki sínu til að fullkomna sigurinn, lokatölur 4-1 og Íslendingalið Atromitos er fallið úr leik.

Viðar Örn var tekinn af velli á 68. mínútu en Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Atromitos. Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson sat á bekknum hjá Olympiacos.

Hörður Björgvin spilaði allan leikinn í miðverði þegar Panathinaikos vann öruggan 3-0 sigur á Volos í kvöld. Hörður Björgvin og félagar hafa verið frábærir það sem af er leiktíð og virðast svo gott sem ósigrandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×