Innlent

SSF vísar til ríkis­sátta­semjara og vill prósentu­hækkanir

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.
Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Vísir

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa vísað viðræðum um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Friðbert Traustason framkvæmdastjóri SSF segir í samtali við Morgunblaðið í dag að samtöl við fyrirtækin hafi ekki skilað árangri og þau ákveðið að fá SA til að annast samningagerðina. Friðbert segir að samningar um krónutöluhækkanir komi ekki til greina, eins og síðast hafi verið gert undir þrýstingi og eins og kveðið er á um í nýgerðum samningum Starfsgreinasambandsins og SA.

Nauðsynlegt sé að semja um prósentuhækkanir til að tryggja að starfsfólk fjármálafyrirtækja verði ekki fyrir kaupmáttarrýrnun. Þá bendir Friðbert á að ef krónutöluhækkun yrði niðurstaðan yrðu fyrirtækin í geiranum ekki lengur samkeppnishæf við ríkið um háskólamenntað starfsfólk.

Og þá hefur verið boðað til sáttafundar hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á morgun klukkan þrettán en samningsaðilar hafa ekkert rætt saman síðan Efling vísaði deildunni til sáttameðferðar þann sjöunda desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×