Körfubolti

Halda Brilladaginn hátíðlegan annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson á leikja- og stigamet KR í úrvalsddeild og varð átta sinnum Íslandsmeistari með félaginu.
Brynjar Þór Björnsson á leikja- og stigamet KR í úrvalsddeild og varð átta sinnum Íslandsmeistari með félaginu. Vísir/Bára Dröfn

KR-ingar hafa enn ekki unnið heimaleik í Subway deild karla í körfubolta í vetur og reyna einu sinni enn á fimmtudagskvöldið í síðasta heimaleik sínum fyrir jól.

KR tekur á móti Tindastól á Meistaravöllum annað kvöld. Fyrstu fimm heimaleikir liðsins í deildinni í vetur hafa tapast og auk þess féll KR út úr bikarnum á heimavelli á mánudagskvöldið.

Vesturbærinn sem var heimili Íslandsbikarsins samfellt frá 2014 til 2021 er nú eina íþróttahúsið í deildinni þar sem heimaliðið hefur ekki unnið leik.

KR-ingar auglýsa leikinn sem Brillaleikinn en Brynjar spilaði ekki aðeins flesta deildarleiki í sögu KR því hann spilaði einnig eitt tímabil með Tindastól þar sem hann setti meðal annars nýtt met í þriggja stiga körfum í einum leik.

Nú er spurning hvort tengingin við Brynjar nái loksins að kalla fram heimasigur en Brynjar vann alls 244 deildarleiki með KR sem er meira en nokkur annar leikmaður hefur spilað fyrir KR.

Leikjamet Brynjars fyrir KR í úrvalsdeild er 341 leikur en næstleikjahæstur KR-inga í úrvalsdeild karla er Darri Hilmarsson með 218 leiki og aðeins þeir Guðni Ólafur Guðnason (202 leikir) og Lárus Þórarinn Árnason (200) hafa spilað fleiri en tvö hundruð leiki fyrir KR í úrvalsdeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×