Erlent

Mann­skæður stór­bruni í verslunar­mið­stöð við Moskvu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mega-verslunarmiðstöðin í Khimki hrundi að hluta í eldhafinu sem er sagt hafa torveldað starf slökkviliðs.
Mega-verslunarmiðstöðin í Khimki hrundi að hluta í eldhafinu sem er sagt hafa torveldað starf slökkviliðs. Vísir/EPA

Einn er látinn eftir að mikill eldur kviknaði í stórri verslunarmiðstöð rétt utan við Moskvu í Rússlandi í gær. Eldhafið náði yfir alla verslunarmiðstöðina þegar eldurinn var sem ákafastur.

Á annað hundrað slökkviliðsmanna með 47 slökkvibíla glímdu við eldinn sem kviknaði í Mega-verslunarmiðstöðinni í Khimki nærri Moskvu í gær, að sögn rússnesku ríkisfréttaveitunnar TASS. Öll byggingin, sem er um 18.000 fermetrar, var alelda á tímabili og stóðu eldtungur og mikill svartur reykur upp frá henni. Almannavarnir í Moskvu segja að öryggisvörður hafi farist í bálinu.

Reuters-fréttastofan segir að rannsóknarnefnd Rússlands, sem rannsakar meiriháttar glæpi, kanni nú upptök eldsins. Yfirmaður almannavarna í Moskvu segir að svo virðist sem að eldurinn hafi kviknað út frá viðgerðarframkvæmdum á miðstöðinni þar sem öryggisreglur hafi verið brotnar.

Verslunarmiðstöðin er ein sú stærsta á svæðinu. Fyrir innrás Rússa í Úkraínu hýsti hún fjölda vestrænna verslanakeðja, þar á meðal fyrstu IKEA-verslunina á höfuðborgarsvæði Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×