Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Breiðablik 93-51 | Breiðablik fékk skell með nýjan þjálfara

Andri Már Eggertsson skrifar
Vísir/Bára

Fjölnir valtaði yfir Breiðablik í fyrsta leik Jeremy Smith sem tók við Breiðabliki eftir að Yngva Gunnlaugssyni var sagt upp störfum. Fjölnir fór hægt af stað og var þremur stigum undir eftir fyrsta fjórðung en tók síðan yfir leikinn í öðrum leikhluta og keyrði yfir Breiðablik það sem eftir var leiks. 

Fjölnir vann á endanum 42 stiga sigur 93-51. 

Breiðablik tók frumkvæðið og það var mikil orka í liðinu til að byrja með enda nýr þjálfari í brúnni og stelpurnar ætluðu að stimpla sig vel inn strax á fyrstu mínútu. Fjölnir byrjaði fyrsta leikhluta illa en heimakonur komust í betri takt eftir því sem leið á. Það var mikið stjórnleysi í sóknarleik Fjölnis til að byrja með og heimakonur lentu snemma sjö stigum undir. Eftir að hafa farið hægt af stað náði Fjölnir sér á strik og var staðan 16-19 eftir fyrsta fjórðung.

Breiðablik byrjaði annan leikhluta nákvæmlega eins og þann fyrsta. Gestirnir gerðu fyrstu tvær körfurnar og komust sjö stigum yfir.

Fjölnir tók yfir leikinn um miðjan annan leikhluta þegar heimakonur voru fimm stigum undir. Varnarleikur Fjölnis var öflugur og sóknarleikurinn fylgdi með. Fjölnir sneri leiknum algjörlega sér í hag og gerði ellefu stig í röð. Á tæplega fjórum mínútum kom Breiðablik ekki stigi á töfluna. Eftir ótrúlegan annan fjórðung sem endaði 28-13 var Fjölnir tólf stigum yfir í hálfleik 44-32.

Það var eins og Breiðablik hafði ekki talað saman í hálfleik og reynt að skerpa á því sem var að klikka í öðrum leikhluta. Þriðji leikhluti spilaðist nákvæmlega eins og annar leikhluti þar sem Breiðablik tók léleg skot, tapaði boltanum og Fjölnir refsaði nánast í hvert skipti þar sem Fjölnir gerði vel í að skrúfa upp hraðann.

Fjölnir var ekkert á því að taka fótinn af bensíngjöfinni í fjórða leikhluta heldur héldu heimakonur áfram að keyra upp hraðann sem Breiðablik átti ekki roð í. Það tók gestina úr Kópavogi tæplega fjórar mínútur að komast á blað í fjórða leikhluta.

Þar sem úrslit leiksins voru ráðin í fjórða leikhluta fóru bæði lið að setja leikmenn inn á sem höfðu spilað minna og Breiðablik beið einfaldlega eftir því að leikurinn myndi klárast. Fjölnir vann á endanum fjörtíu og tveggja stiga sigur 93-51.

Af hverju vann Fjölnir?

Fjölnir byrjaði leikinn illa og var undir eftir fyrsta leikhluta en síðan var allt annað að sjá til liðsins sem rúllaði yfir Breiðablik.

Fjölnir vann síðustu þrjá leikhlutana 77-32. Það var ekki veikan blett á spilamennsku Fjölnis að finna sem skilaði sér í 42 stiga sigri. 

Hverjar stóðu upp úr?

Taylor Dominique Jones var stigahæst á vellinum með 28 stig en hún tók einnig 13 fráköst og endaði með 34 framlagspunkta. 

Urté Slavickaite var allt í öllu þar sem hún gerði 25 stig, tók 4 fráköst, gaf 5 stoðsendingar, stal 7 boltum og endaði með 32 framlagspunkta. 

Hvað gekk illa?

Þessi frammistaða Breiðabliks er afar mikið áhyggjuefni fyrir Jeremy Smith sem var að stýra sínum fyrsta leik sem þjálfari Breiðabliks. Það er hægt að taka mikið fyrir sem klikkaði hjá Breiðabliki en munurinn á framlagspunktunum lýsir því vel. 

Breiðablik endaði með 34 framlagspunkta sem var 96 framlagspunktum minna en Fjölnir. 

Hvað gerist næst?

Breiðablik fær Njarðvík í heimsókn næsta miðvikudag klukkan 19:15.

Næsta miðvikudag fer Fjölnir í Ólafssal og mætir Haukum klukkan 20:15.

Kristjana: Spiluðum geggjaða vörn í þrjá leikhluta

Kristjana Eir Jóndsóttir var ánægð með sigurinnVísir/Vilhelm

Kristjana Eir Jónsdóttir, þjálfari Fjölnis, var afar sátt með örruggan sigur á Breiðabliki.

„Út af landsleikjunum fengum við nægan tíma í undirbúning og það sem við gerðum þar hefur virkað fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar í leiknum. Við spiluðum ógeðslega vel saman og ég var ánægð með hvernig við náðum að mata hvor aðra með aukasendingum.“

Fjölnir byrjaði leikinn illa og var þremur stigum undir en eftir fyrsta leikhluta var allt annað að sjá spilamennsku Fjölnis.

„Við fórum að spila eins og við lögðum upp með. Við fórum að gefa boltann meira og hættum að vera stirðar sóknarlega. Við fengum stopp varnarlega og þá varð sóknarleikurinn auðveldari þar sem við fórum að hlaupa á þær en ekki öfugt.“

Kristjana var ánægð með varnarleik Fjölnis í öðrum leikhluta þar sem Breiðablik gerði ekki stig í tæplega fjórar mínútur.

„Við spiluðum geggjaða vörn í þrjá leikhluta þar sem við héldum þeim í 13, 12 og 7 stigum sem er mjög gott,“ sagði Kristjana Eir Jónsdóttir að lokum.

Jeremy Smith: Þurfum að verða betri sem lið

Jeremy Smith, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með tap kvöldsins. 

„Mér fannst við vera þreyttar í kvöld. Fyrstu fimmtán mínúturnar vorum við ferskar og fórum eftir leikplani. Leikurinn er fjörtíu mínútur og þetta er maraþon ekki sprettur,“ sagði Jeremy Smith og bætti við að hans stelpur hafi verið andlega þreyttar líka.

Breiðablik spilaði afar illa í öðrum leikhluta og leikur Blika batnaði ekkert í þriðja leikhluta en Jeremy vildi að Breiðablik færi að spila eins og í byrjun leiks.

„Í hálfleik ræddum við um að fara spila eins og við gerðum í upphafi leiks. Mér fannst við mæta flatar út í seinni hálfleik en ég reyndi að minna stelpurnar á að þetta sé ekki sprettur og hafa svoldið gaman af því að spila körfubolta.“

Það er svo sannarlega verk að vinna fyrir Jeremy Smith sem var að þjálfa sinn fyrsta leik og að hans mati þarf að bæta bæði varnar og sóknarleikinn.

„Við þurfum að fara bæta varnar og sóknarleikinn. Í raun bara verða betri sem lið og bæta liðsheildina,“ sagði Jeremy Smith að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira