Viðskipti innlent

Stjörnu­torgs­skiltið fer á nýtt Stjörnu­torg

Bjarki Sigurðsson skrifar
Merki Stjörnutorgs mun flytja í Garðabæinn á næstunni.
Merki Stjörnutorgs mun flytja í Garðabæinn á næstunni. Kringlan

Fyrirtækið Tæknivörur hefur fest kaup á skilti sem var staðsett á Stjörnutorgi í Kringlunni. Fyrirtækið borgar 200 þúsund krónur fyrir skiltið en öll fjárhæðin rennur til góðgerðarmála. Tæknivörur munu síðan afhenda íþróttafélaginu Stjörnunni skiltið. 

Skilti Stjörnutorgs fór á uppboð eftir að það var tekið niður þegar torginu var lokað í síðasta mánuði. Stjörnutorg hafði verið í Kringlunni í 23 ár en nú hefur mathöllin Kúmen tekið við. 

Nokkur tilboð bárust í skiltið en að lokum var það fyrirtækið Tæknivörur sem átti hæsta boð, 200 þúsund krónur. Allur peningurinn rennur óskipt í pakkasöfnun Kringlunnar til styrktar Mæðrastyrksnefndar, Fjölskylduhjálpar Íslands og Hjálparstofnunar Kirkjunnar. 

Tæknivörur ætla að gefa íþróttafélaginu Stjörnunni í Garðabæ merkið. Torg við heimavöll Stjörnunnar er kallað Stjörnutorg af flestum. Því var það skrifað í skýin að merkið færi þangað. 

„Tæknivörur er einn stærsti styrktaraðili okkar. Við erum með lítið torg hér við Samsung-völlinn sem heitir Stjörnutorg. Þar seljum við hamborgara á fótboltaleikjum og svona. Okkur fannst þetta tilvalið þegar við fengum þessa ábendingu frá einum góðum Stjörnumanni. Við ákváðum að taka slaginn þannig við heyrðum í okkar bestu mönnum sem voru heldur betur klárir í þetta. Þetta fer auðvitað í gott málefni og er skemmtilegt fyrir nærumhverfið okkar,“ segir Dagur Jónsson, samskipta- og markaðsstjóri Stjörnunnar, í samtali við fréttastofu. 

Til stendur að taka svæðið fyrir framan Samsung-völlinn í gegn og verður merkið hluti af nýrri ásýnd við völlinn. Skiltið verður afhent Tæknivörum í næstu viku og fer síðan í Garðabæ eftir það.


Tengdar fréttir

Stjörnu­torg verður að Kúmen

Nýtt veitinga- og afþreyingasvæði Kringlunnar hefur fengið nafnið Kúmen. Sautján veitingastaðir verða á svæðinu en nokkrir þekktir staðir Stjörnutorgs munu hverfa á brott. 

Sá sér leik á borði og selur Stjörnu­torg

Eigandi lénsins Stjörnutorg.is hefur sett lénið á sölu. Stjörnutorg lokar í dag eftir 23 ára starfsemi en Kringlan hefur engin tengsl við lénið að sögn markaðsstjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×