Viðskipti innlent

Óska eftir sjónar­miðum vegna kaupa á Gleði­pinnum

Atli Ísleifsson skrifar
Þórólfur Gíslason er kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.
Þórólfur Gíslason er kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Aðsend

Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir sjónarmiðum vegna rannsóknar sinnar á fyrirhuguðum kaupum Kaupfélags Skagfirðinga og Háa kletts ehf. á Gleðipinnum hf.

Samrunarnir leiða til þess annars vegar að veitingastaðirnir Aktu Taktu, American Style, Hamborgarafabrikkan og Blackbox Pizza verða undir yfirráðum Kaupfélags Skagfirðinga og Háa Kletts og hins vegar að Keiluhöllin, Rush Iceland trampólíngarður og Shake & Pizza verði undir yfirráðum bæði kaupenda og seljenda í viðkomandi viðskiptum.

Á vef Samkeppniseftirlitsins segir að rannsóknin á samkeppnislegum áhrifum umræddra samruna beinist einkum að veitinga- og skyndibitamarkaði og markaði fyrir sölu og vinnslu á ferskum og unnum kjötafurðum.

„Kaupfélag Skagfirðinga er birgi fjölmargra veitingastaða og eldhúsa í gegnum eignarhald á Esju gæðafæði ehf., Sláturhúsi Hellu hf. og Sláturhúsi KVH ehf. Auk þess er skyndibitastaðurinn Metro í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Háa kletts.

Þeim sem þess óska er hér með boðið að koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum sem geta skipt máli við rannsóknina.“

Samrunatilkynningar bárust Samkeppniseftirlitinu þann 18. nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir

Kaupfélag Skagfirðinga og Árni Pétur kaupa Gleðipinna

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, hafa náð samkomulagi um kaup á Gleðipinnum en félagið, sem veltir yfir þremur milljörðum króna, rekur meðal annars veitingastaðina American Style og Hamborgarafabrikkuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×