Fótbolti

Southgate sýnir Englendingum myndband af því hvernig Walesverjar fögnuðu sigri Íslendinga 2016

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
isleal

Til að kveikja í sínu liði fyrir leikinn mikilvæga gegn Wales á HM í Katar í kvöld ætlar Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, að sýna sínum mönnum myndbönd af því þegar Walesverjar glöddust yfir sigri Íslendinga á Englendingum á EM 2016.

Allt er opið í B-riðli HM í Katar sem lýkur í kvöld. Englendingar eru á toppi riðilsins með fjögur stig en Walesverjar á botninum með eitt stig.

Eins og venjulega þegar þessi lið eigast við verður hart barist í Katar í kvöld. Og til að hvetja sína menn til dáða ætlar Southgate að sýna þeim myndband af því hvernig Walesverjar fögnuðu óvæntum sigri Íslendinga á Englendingum, 2-1, í sextán liða úrslitum EM 2016. 

Þórðargleðin var alls ráðandi hjá Walesverjum eftir sigur Íslendinga og Southgate hyggst nýta sér viðbrögð þeirra til að brýna sína menn fyrir leikinn í kvöld.

England er í mjög góðri stöðu til að komast áfram í sextán liða úrslit. Svo lengi sem Englendingar tapa ekki með fjórum mörkum eða meira komast þeir upp úr riðlinum. Wales þarf aftur á móti að vinna England og treysta á hagstæð úrslit í leik Bandaríkjanna og Írans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×