Skoðun

Mót­sagnir ríkis­valdsins í rekstri fangelsanna

Egill Kristján Björnsson skrifar

Fjárlög og sú krafa að Fangelsismálastofnun haldi sig innan allt of þröngra fjárheimilda, gerir það að verkum að niðurskurður bitnar á starfsfólki og skjólstæðingum fangelsanna. Fangelsismálastofnun getur því ekki sinnt sinni lögbundnu skildu. Og það bitnar á samfélaginu öllu, þjónustunni, föngum og fangavörðum. Vandamálið í þessu kerfi er að það gengur ekki upp vegna fjársveltis. Það er í raun þversögn; að verða að framfylgja lögum og veita þjónustu en fjársvelta hana um leið. Undarlegt að mönnum hafi dottið slíkt kerfi í hug og ekki áttað sig á því að slíkt kerfi gengur aldrei upp. Pólítíkin vinnur gegn sjálfri sér og samfélaginu um leið. Við erum öll þátttakendur í samfélaginu, líka þeir sem hanna svona kerfi. Ef eitthvað klikkar í vélinni þá mun eitthvað láta undan, það er ekki flókið.

Fangelsið á Hólmsheiði tók til starfa árið 2016. Aðstaða fanga og starfsmanna batnaði til muna. Þrátt fyrir að nýtt fangelsi, sem er mun stærra og flóknara hús en þau gömlu sem tekin voru úr notkun, var haldið áfram að skera niður. Það er dýrara að reka stærra hús sem tekur fleiri fanga og kallar á fleiri starfsmenn. Dæmið gengur bara ekki upp.

Starf fangavarða getur verið ansi strembið en það getur líka verið mjög gefandi. Það eru plúsar og mínusar eins og í svo mörgum öðrum störfum. Fullnustu refsinga er vandasamt verk og það þarf að taka tillit til margra þátta. Lagaumhverfið gerir ákveðnar kröfur á störf fangavarða og þeir eru bundnir lagalegum skyldum til að sjá til þess að fullnustu refsingar séu gerð góð skil.

Hugmyndir manna um afplánun og betrun eru í stöðugri þróun. Sem betur fer erum við ekki stödd á sama stað og fyrir 50 árum í þeim efnum. Á síðustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á betrun og það er hægt að fullyrða að við höfum náð miklum árangri í þeirri vegferð. Í dag standa fangaverðir frammi fyrir nýjum veruleika þar sem ofbeldi gagnvart starfsfólki og öðrum föngum er nánast daglegt brauð. Á meðan hafa stjórnvöld farið í ítrekaðar niðurskurðaraðgerðir til málaflokksins frá árinu 2007. Það er gerð krafa um að fangaverðir haldi fullum dampi fyrir alltof lág laun með of fáu starfsfólki. Á árinu 2007 voru gerðir samningar um að laun fangavarða yrðu samanburðarhæf við aðra löggæsluhópa hjá ríkinu. Síðan þá hefur launum fangavarða kerfisbundið verið haldið niðri. Dæmið gengur bara ekki upp.

Eins og segir hér að ofan hefur starfsumhverfið hjá fangavörðum á Hólmsheiði batnað töluvert. Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja það sama um launaþróunina. Fangaverðir krefjast hærri launa fyrir sína vinnu. Þeir eru undir gríðarlegu álagi og fangelsin eru undirmönnuð, sem þýðir að álagið vex. Þá eru aðrir þættir sem stjórnvöld líta fram hjá; streita, tilfinningalegt og andlegt álag, ásamt líkamlegum árásum og hótunum um líflát.

Fangaverðir eins og annað fólk og gerir sínar áætlanir út frá launum sínum. Laun þurfa að standast væntingar og ef þau gera það ekki eykst vandinn. Þá er krafan um aukið vinnuframlag endalaus af hálfu stjórnvalda – að leggja á sig meira vinnuframlag fyrir hlutfallslega stöðuga lækkun launa. Nú er gerð krafa um enn meiri niðurskurð. Fangaverðir eru búnir að eiga við stöðugan niðurskurð í mörg ár en á meðan hafa ytri aðstæður tekið miklum breytingum, eins og aukið ofbeldi og veikari einstaklingar sem koma í afplánun í fangelsin. Það verður að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi. Róðurinn er að þyngjast og við verðum að getað boðið góðu og traustu fólki almennilega vinnuaðstöðu og sanngjörn laun.

Höfundur er fangavörður í fangelsinu á Hólmsheiði og félagi í Sameyki.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×