Erlent

Bein útsending: Mannréttindaráð fundar um Íran að beiðni Íslands og Þýskalands

Samúel Karl Ólason skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf heldur í dag sérstakan aukafund um ástand mannréttindamála í Íran. Fundurinn er haldinn að beiðni Íslands og Þýskalands og er honum ætlað að knýja á um að Sameinuðu þjóðirnar hefji markvissa gagnaöflun varðandi framgöngu yfirvalda í Íran gegn friðsömum mótmælendum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Annalena Baerbock, utanríkisráðherrar Íslands og Þýskalands, taka þátt í umræðunni.

Fjölmenn mótmæli hafa átt sér stað í Íran á undanförnum vikum og hafa þau að miklu leyti verið leidd af konum og stúlkum sem krefjast grundvallarmannréttinda. Fjölmargir hafa verið handteknir og settir í fangelsi og hafa ítrekað borist fregnir af grófri valdbeitingu öryggissveita.

Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu, sem send var út fyrr í mánuðinum eftir að boðað var til fundarins, stóð að mörg aðildarríki hafi efasemdir um að taka þetta fyrir á vettvangi mannréttindaráðsins. Það sé þó grundvallarafstaða Íslands að ráðið verði að láta til sín taka varðandi alvarleg mannréttindamál.

Horfa má á fundinn í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×