Erlent

Mis­munun að fá ekki að kjósa fyrr en á­tján ára

Atli Ísleifsson skrifar
Jacinda Ardern hefur sjálf sagst vera fylgjandi því að lækka kosningaaldur úr átján ára í sextán ára.
Jacinda Ardern hefur sjálf sagst vera fylgjandi því að lækka kosningaaldur úr átján ára í sextán ára. EPA

Hæstiréttur Nýja-Sjálands hefur úrskurðað að það feli í sér mismunun að fá fyrst að kjósa þegar maður er orðinn átján ára.

Þetta varð ljóst fyrr í dag, en þar með lýkur tveggja ára baráttu samtakanna Make It 16 fyrir dómstólum. Guardian segir frá því að eftir að niðurstaða lá fyrir hét Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, því að leggja fram frumvarp sem fæli í sér að kosningaaldur í landinu yrði lækkaður úr átján ára í sextán.

Samtökin Make It 16 rökstuddu kröfu sína meðal annars með því að benda á að einstaklingar ættu að fá að kjósa sextán ára þar sem loftslagsbreytingarnar muni hafa mikil áhrif á yngri kynslóðir og framtíð þeirra. Taldi Hæstiréttur að verið væri að brjóta á grundvallarmannréttindum ungra.

Úrskurður Hæstaréttar Nýja-Sjálands felur ekki í sér að kosningaaldur verði sjálfkrafa lækkaður, heldur verði það að vera ákvörðun þingsins. Þó liggi nú fyrir afstaða æðsta dómstólsins sem kveður á um að verið sé að brjóta á mannréttindum sextán og sautján ára fólks. 

„Ríkisstjórnin og þingið geta ekki hunsað svo skýran réttarfarslegan og siðferðislegan boðskap. Þau neyðast til að láta okkur fá að kjósa,“ sagði Caeden Tipler, einn leiðtoga Make It 16.

Ardern hefur sjálf sagst vera fylgjandi því að lækka kosningaaldur úr átján ára í sextán ára. Þó sé best að leggja málið fyrir þingið til að raddir allra fái að heyrast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×