Handbolti

Noregur mætir Dan­mörku í úr­slitum EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nora Mørk var markahæst í liði Noregs í kvöld eins og svo oft áður.
Nora Mørk var markahæst í liði Noregs í kvöld eins og svo oft áður. Sanjin Strukic/Getty Images

Noregur, lið Þóris Hergeirssonar, er komið í úrslit Evrópumótsins í handbolta eftir frábæran sigur á Frakklandi í kvöld. Noregur er ríkjandi meistari en lið Þóris varð Evrópumeistari eftir sigur á Frakklandi árið 2020.

Leikurinn var æsispennandi í fyrri hálfleik og mjótt á munum. Á endanum var Noregur einu marki yfir en Þórir gat þakkað markverði sínum, Silje Margaretha Solberg-Østhassel, fyrir að staðan var 12-11 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var hins vegar aðeins eitt lið á vellinum, norska liðið var hreinlega mun betri aðilinn og henti franska liðið inn hvíta handklæðinu þegar enn var nóg eftir af leiknum. 

Þegar flautað var til leiksloka var Noregur átta mörkum yfir, lokatölur 28-20. Sigurinn þýðir að Noregur er komið í úrslit Evrópumótsins og getur enn varið titil sinn.

Nora Mørk var markahæst hjá Noregi með 8 mörk. Þar á eftir kom Stine Bredal Oftedal með 7 mörk. Grâce Zaadi Deuna var markahæst í liði Frakklands með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×