Handbolti

Dan­mörk í úr­slita­leik Evrópu­mótsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emma Friis var frábær í kvöld.
Emma Friis var frábær í kvöld. Jan Christensen/Getty Images

Danmörk er komið í úrslit EM kvenna í handbolta eftir fjögurra marka sigur á Svartfjallalandi, lokatölur 27-23. Síðar í kvöld kemur í ljós hvort það verði Noregur eða Frakkland sem mætir Danmörku í úrslitum.

Segja má að góður kafli um miðbik fyrri hálfleiks hafi lagt grunninn að sigri Danmerkur í kvöld. Svartfellingar byrjuðu leikinn betur og komust þremur mörkum yfir áður en Danmörk sneri taflinu sér í hag.

Svartfjallaland var 6-3 yfir þegar Danmörk skoraði fimm mörk í röð og eftir það var ekki aftur snúið. Þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks var staðan 14-10 Danmörku í vil og tókst liðinu að halda í þá forystu út síðari hálfleikinn. Lokatölur 27-23 og Danmörk er komið í úrslitaleik Evrópumótsins. 

Er þetta fyrsti úrslitaleikur Danmerkur á EM síðan árið 2004 í Ungverjalandi en alls hefur Danmörk þrisvar sinnum orðið Evrópumeistari.

Emma Friis var markahæst í liði Dana með 7 mörk, þar á eftir kom Mie Højlund með 6 mörk. Đurđina Jauković og Itana Grbić voru markahæstar í liði Svartfjallalands með 7 mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×