Erlent

Á fleygiferð til tunglsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Orion geimfarið á milli tunglsins og jarðarinnar.
Orion geimfarið á milli tunglsins og jarðarinnar. NASA

Fyrsta geimskot Artemis-áætlunarinnar heppnaðist vel þegar Orion geimfari var skotið af stað til tunglsins. Um fimmtíu ár eru frá því menn stóðu síðast á yfirborði tunglsins en Artemis-áætlunin snýr að því að koma upp varanlegri viðveru þar á næstu árum.

Í morgun, þegar rúmur sólarhringur var liðinn frá því að Orion-geimfarinu var skotið á loft var það komið í um 196 þúsund kílómetra fjarlægð frá jörðinni og var þá um 279 þúsund kílómetra frá tunglinu. Geimfarið var þá á tæplega fimm þúsund kílómetra hraða á klukkustund.

Geimfarið verður komið til tunglsins þann 21. nóvember og verður á braut um tunglið um nokkuð skeið. Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd, fer Orion-geimfarið næst tunglinu í fyrstu sporbraut þess og þeirri síðustu, þegar þyngdarkraftur tunglsins verður notaður til að senda það aftur til jarðarinnar.

Í millitíðinni verður geimfarið í um sjötíu þúsund kílómetra fjarlægð frá tunglinu. Heilt yfir á geimferðin að taka tæpa 26 daga.

Mynd sem sýnir ferðalag Artemis-1 og smágervihnatta sem einnig er verið að flytja til tunglsins.NASA

Helstu markmiðin sem starfsmenn NASA vilja ná með Artemis-1 eru að tryggja að Orion-geimfarið og öll kerfin sem að því snúa virki vel. Um borð er vísindabúnaður sem nota á til að greina möguleg áhrif geimferðar sem þessar á menn en þær greiningar snúa meðal annars að geislun.

Geimfarið ber einnig tíu smágervihnetti sem nota á til rannsókna á yfirborði tunglsins og leggja grunn að mönnuðum ferðum þangað.

Ánægðir með eldflaugina

Þetta var í fyrsta sinn sem Space Launch System eldflauginni var skotið á loft en hún er öflugasta eldflaug sem hefur verið notuð við geimskot og á að vera burðarhestur Artemis-áætlunarinnar.

Þróun og framleiðsla SLS hefur einkennst af töfum og vandræðum. SLS hefur reynst mun dýrari en upprunalega stóð til en upprunalega stóð til að skjóta þeirri fyrstu á loft árið 2016.

NASA og Boeing hafa þó frestað geimskotinu ítrekað í gegnum árin.

Wall Street Journal hefur eftir yfirmönnum NASA að þeir séu ánægðir með það hvernig fyrsta geimskot SLS fór. Það er eftir að fresta þurfti geimskotinu nokkrum sinnum vegna eldsneytisleka og annarra vandræða sem tengdust eldflauginni.

Vel gekk að dæla eldsneyti á tanka eldflaugarinnar í aðdragnada geimskotsins en seinna meir greindist leki á einum tankinum. Starfsmönnum NASA tókst þó að laga hann svo hægt var að skjóta eldflauginn og geimfarinu á loft.

Gerðu annan samning við SpaceX

Forsvarsmenn NASA tilkynntu á þriðjudaginn að samningur hefði verið gerður við fyrirtækið SpaceX um að lenda mönnum á tunglinu árið 2027, þegar Artemis-4 verður skotið á loft. Áður hafði samningur verið gerður um að lenda mönnum á tunglinu árið 2025. Þá stendur til að skjóa Artemis-3 á loft og verður það í fyrsta sinn sem menn lenda á tunglinu frá árinu 1972.

Fyrst verður þó að skjóta Artemis-2 á loft. Þá verða menn um borð í Orion-geimfari sem fara á svipaða ferð og Artemis-1. Til stendur að fara þá geimferð árið 2024.


Tengdar fréttir

Artemis-1 loks á leið til tunglsins

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) skutu í morgun geimfari af stað til tunglsins. Eftir ítrekaðar frestanir bar fyrsta Space Launch System eldflaugin, sem er sú öflugasta sem hefur verið framleidd, Orion-geimfar á braut um jörðu en þaðan verður farinu flogið til tunglsins.

Tunglið gæti hafa myndast á nokkrum klukku­stundum

Mögulegt er að tunglið hafi myndast mun hraðar en talið hefur verið fram að þessu. Hermun tölvulíkans bendir til þess að það kunni að hafa myndast á aðeins nokkrum klukkustundum eftir árekstur jarðarinnar við aðra frumreikistjörnu.

Opin­ber­uð­u hverj­ir þróa geimb­ún­ing­a fram­tíð­ar­inn­ar

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur gert samninga við Axiom Space og Collins Aerospace um þróun og framleiðslu geimbúninga og búnaðar til geimgangna. Þennan búnað eiga meðal annars geimfarar Artemis-áætlunarinnar að nota á braut um jörðu og á yfirborði tunglsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×