Handbolti

Öruggir sigrar hjá Svíum og Hollendingum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sænska liðið missti af sæti í undanúrslitum.
Sænska liðið missti af sæti í undanúrslitum. Vísir/Getty

Svíar og Hollendingar unnu örugga sigra í leikjum sínum í lokaumferð milliriðla á Evrópumótinu í handknattleik. Hvorugt liðið á möguleika á því að komast í undanúrslit keppninnar.

Fyrir leikina í dag var ljóst að hvorugt liðanna ætti möguleika á að ná sæti í undanúrslitum mótsins. Von Svía dó endanlega eftir sigur Ungverja á Slóvenum í dag en með sigri Slóvena í þeim leik og sigri Noregs gegn Dönum í kvöld hefðu Svíar farið áfram.

Það var þó ekki að sjá að það hefði áhrif á Svía því liðið vann nokkuð þægilegan sigur á Króötum í leik sem lauk rétt í þessu. Sænsku stelpurnar tóku frumkvæðið snemma og náðu mest níu marka forskoti í fyrri hálfleik.

Króatar bitu aðeins frá sér undir lokin en voru þó aldrei nálægt því að ógna sænska liðinu að ráði. Lokatölur 31-27 en með sigrinum tryggðu Svíar sér þriðja sætið í A-riðli og sæti í leik um 5.sætið á EM. Sigur þar eykur möguleika á sæti á handknattleikskeppni næstu Ólympíuleika.

Nathalie Hagman skoraði átta mörk fyrir Svía og Tina Petika sex fyrir Króatíu.

Hollenska liðið fer ekki í undanúrslit EM.Vísir/Getty

Einnig er nýlokið leik Hollands gegn Svartfjallalandi. Leikurinn hafði litla þýðingu, Svartfellingar voru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitum en með sigri gat Holland tryggt sér leikinn um 5.sætið.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en góður endasprettur Hollendinga í fyrri hálfleik tryggði þeim sex marka forskot í hálfleik. Staðan þá 20-14.

Í síðari hálfleik keyrðu Hollendingar síðan yfir Svartfellinga. Hollenska liðið skoraði tuttugu og tvö mörk í síðari hálfleik gegn aðeins níu mörkum Svartfjallalands og tryggði sér ótrúlegan sautján marka sigur, lokatölur 42-25.

Markahæst hjá Hollendingum var Inger Smits með sjö mörk og þær Laura Van Der Heijden og Meril Freriks skoruðu sex mörk. Djurdjina Jaukovic var langmarkahæst hjá Svartfjallalandi með ellefu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×