Handbolti

Ungverjar hjálpuðu dönsku stelpunum inn í undanúrslit á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrin Gitta Klujber og  Viktoria Lukacs unnu flottan sigur með ungverska landsliðinu í dag.
Katrin Gitta Klujber og  Viktoria Lukacs unnu flottan sigur með ungverska landsliðinu í dag. Getty/Igor Soban

Danmörk er komið í undanúrslit á EM kvenna í handbolta og það án þess að spila. Þær fengu fína hjálp frá Ungverjum sem enduðu drauma heimastúlkna í milliriðli eitt.

Danir og Norðmenn fara því í undanúrslitin og eru bæði búin að tryggja sér þátttökurétt þar án þess að spila síðasta leikinn sinn.

Slóvenía átti enn möguleika að ná Danmörku með hagstæðum úrslitum úr öðrum leikjum en þær urðu að sætta sig við fjögurra marka tap á móti Ungverjum, 29-25.

Á sama tíma vann Þýskaland fjögurra marka sigur á Rúmeníu, 32-28, í hinum milliriðlinum en þar hafa Frakkar og Svartfellingar einnig tryggt sér sæti í undanúrslitum.

Katrin Gitta Klujber skoraði níu mörk fyrir Ungverja en var þó ekki valin maður leiksins því þau verðlaun fékk liðsfélagi hennar Petra Vamos sem var með fjögur mörk og fimm stoðsendingar.

Slóvenar voru 20-19 yfir þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir en Ungverjar unnu næstu tíu mínútur 7-1 og lögðu með því grunninn að sigrinum.

Fjórir leikir eiga eftir að fara fram í dag en úrslitin eru ráðin þegar kemur að því hvaða fjórar þjóðir spila um verðlaun á þessu móti.  Dönsku stelpurnar spila við Noreg í kvöld og þar er spilað um fyrsta sætið í riðlinum og um það að sleppa við að mæta Frökkum í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×