Handbolti

Þrjár af fjórum bestu í heimi spila fyrir Þóri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henny Reistad er besta handboltakona heims að mati Stigs Nygård, blaðamanns á TV2.
Henny Reistad er besta handboltakona heims að mati Stigs Nygård, blaðamanns á TV2. getty/Slavko Midzor

Að mati norska blaðamannsins Stigs Nygård spila þrjár af fjórum bestu handboltakonum heims undir stjórn Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu.

Nygård hefur það fyrir vana að velja fimmtíu bestu handboltamenn heims, bæði karla og konur, þegar styttast fer í enda hvers árs.

Annað árið í röð er hin norska Henny Reistad á toppi lista Nygårds. Hún er markahæsti leikmaður norska liðsins á EM sem nú stendur yfir. Reistad, sem er 23 ára, gekk í raðir Esbjerg í Danmörku frá Vipers í heimalandinu fyrir þetta tímabil.

Í 2. sæti listans er hin rúmenska Cristina Neagu sem fer upp um tvö sæti frá síðasta ári. Hún hefur verið í hópi fremstu handboltakvenna heims um langt árabil.

Norski landsliðsmarkvörðurinn Katrine Lunde er í 3. sæti listans og samherji hennar, Nora Mörk, í því fjórða. Líkt og Reistad fór hún frá Vipers til Esbjerg í sumar. Í 6. sæti listans er svo leikstjórnandi norska landsliðsins, Stine Oftedal, og að mati Nygårds eru því fjórar af sex bestu handboltakonum heims norskar.

Lista Nygårds má sjá með því að smella hér.

Noregur mætir Slóveníu í öðrum leik sínum í milliriðli EM klukkan 17:00 í dag. Með sigri tryggir norska liðið sér sæti í undanúrslitum mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×