Innlent

Þvotta­vél og þurrkari til vand­ræða á Akur­eyri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heimilistæki eru ekki alltaf til friðs.
Heimilistæki eru ekki alltaf til friðs. Vísir/Vilhelm

Þónokkur mál komu á borð lögreglunnar á Norðurlandi eystra um helgina. Ölvaður unglingur hafði í hótunum við aðra, umferðarslys á Akureyri og hávaðasöm þvottavél voru meðal hluta sem tilkynnt var um. 

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að mesti erillinn hafi verið á aðfaranótt föstudags. Þá hafði ungmenni hótað öðrum ungmennum í miðbæ Akureyrar og barst lögreglu tilkynning um að hann hafi beitt aðra ofbeldi. Tilkynning um málið var send barnaverndaryfirvöldum. 

Þá var aðstoð veitt á gistiheimili á Akureyri vegna kvartana um hávaða og ónæði. Önnur hávaðakvörtun barst frá húsi í miðbæ Akureyrar og var það mál leyst á staðnum. 

Þriðja kvörtunin barst þó ekki vegna skemmtanahalds. Íbúar fjölbýlishúss á Akureyri kvörtuðu yfir þvottavél og þurrkara sem var í gangi. Lögregla fór á staðinn og lögðu við hlustir en heyrðu engan hávaða. Lögreglan telur líklegt að vélarnar hafi verið búnar að þurrka og þvo þegar komið var á staðinn. 

Slagsmál urðu á föstudagskvöld í heimahúsi, einnig á Akureyri. Lögreglan handtók tvo einstaklinga og var annar þeirra færður undir læknishendur á Sjúkrahúsi Akureyrar. Þriðji einstaklingurinn tengdur slagsmálunum var einnig færður á bráðamóttöku þar sem hann hlaut aðhlynningu. 

Í gær var karlmaður handtekinn grunaður um heimilisofbeldi. Hann var færður í fangageymslu á Akureyri og er málið í rannsókn.

Nokkrir voru til vandræða á aðfaranótt sunnudags en tveir eru grunaður um húsbrot. Þeir fóru inn á stigagang fjölbýlishúss og gengu berserksgang, brutu rúðu í íbúð og vöktu íbúa með hátterni sínu. 

Umferðarslys varð á gatnamótum Þingvallastrætis og Þórunnarstrætis á Akureyri þegar ökumaður fipaðist við akstur og ók niður girðingu sem skilur að akreinar á Þórunnarstræti. Tjón varð á bifreiðinni og girðingin féll niður en engin slys urðu á vegfarendum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×