Innlent

Þeysa um Þorlákshöfn á þríhjóli með gamla fólkið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jón Baldursson og Selma Róbertsdóttir létu vel af hjólatúrnum með Björk Tómasdóttur, deildarstjóra dagdvalar aldraðra í Þorlákshöfn. Hér eru þau við íþróttamiðstöðina.
Jón Baldursson og Selma Róbertsdóttir létu vel af hjólatúrnum með Björk Tómasdóttur, deildarstjóra dagdvalar aldraðra í Þorlákshöfn. Hér eru þau við íþróttamiðstöðina. Arnar Halldórsson

Eldri borgarar í Þorlákshöfn sjást þessa dagana þeysa um götur bæjarins á þríhjóli. Þannig rúnta þeir um bæinn, hitta annað fólk og hafa gaman af.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá óvenjulega sýn á aðalgötunni, þríhjól með fullorðið fólk. Björk Tómasdóttir, sem stýrir dagdvöl aldraðra í Þorlákshöfn, var í hjólatúr með tvo eldri borgara, þau Jón Baldursson og Selmu Róbertsdóttur, en Björk segir okkur að kórfélagar í Tónum og trix hafi gefið dagdvölinni hjólið.

„Og voru að láta af störfum núna og áttu einhvern pening til að gefa okkur. Ákváðu sem sagt að kaupa hjól og gefa okkur. Svo kom hollvinafélag á móts við þau. Þannig að við fengum bara svona óvænt hjól upp í hendurnar,“ segir Björk og tekur fram að hjólið sé einnig rafmagnshjól.

Björk hjólar með farþegana eftir Hafnarbergi, aðalgötunni í Þorlákshöfn.Arnar Halldórsson

„Þannig að þetta er bara guðsgjöf. Það hafa allir voðalega gaman af þessu. Að fara svona út á rúntinn og hitta fólk,“ segir Björk.

Og þegar við spurðum farþegana, þau Jón og Selmu, hvernig þeim liði á hjólinu svöruðu þau bæði: „Vel.“ Og sögðust hafa gaman að því að ferðast svona um bæinn á hjólinu. „Þetta er nokkuð gott,“ sagði Jón.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×