Innlent

Héraðs­dómur hafi ekki tekið mið af mati geð­læknis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna, segir að úrskurði héraðsdóms hafi þegar verið skotið til Landsréttar.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna, segir að úrskurði héraðsdóms hafi þegar verið skotið til Landsréttar. Vísir/Egill

Tveir karlmenn sem lögregla grunar um að hafa skipulagt hryðjuverk hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald. Lögmaður annars þeirra segir úrskurðinn óskiljanlegan, þar sem geðlæknir hafi metið þá hvorki hættulega sjálfum sér né öðrum.

Mennirnir tveir hafa nú setið í gæsluvarðhaldi í sjö vikur. Fyrst um sinn voru mennirnir úrskurðaðir í varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en nú síðast voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Mennirnir voru þá taldir hættulegir almenningi.

Klippa: Héraðs­dómur hafi ekki tekið mið af mati geð­læknis

Lögmaður annars þeirra átti von á að héraðssaksóknari gerði kröfu um lengra gæsluvarðhald.

„Við áttum von á að það yrði beðið um fjórar vikur sem er hámarkið en það var ákveðið að láta við það sitja að krefjast tveggja vikna,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður annars mannanna. 

Boltanum varpað yfir til Landsréttar

Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðað mennina í áframhaldandi varðhald á grundvelli almannahagsmuna.

„Og byggir það á hættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Ég gagnrýndi það að í greiningu ríkislögreglustjóra, sem reyndar kom áður en niðurstaða geðlæknis kom, að það skyldi ekki vera tekið tillit til geðmatsins.“

Geðlæknir sem lögregla fól að leggja mat á mennina mat, að sögn Sveins, mennina hvorki hættulega sjálfum sér né öðrum. Héraðsdómur hafi ekki tekið mið af því mati.

„Það er greinilegt að boltanum er varpað yfir til Landsréttar til að hnekkja fyrri niðurstöðu Landsréttar,“ segir Sveinn Andri og vísar þar til staðfestingar Landsréttar á gæsluvarðhaldi yfir mönnunum fyrir mánuði síðan. 

Umbjóðandi hans hafi þegar tekið ákvörðun um að skjóta úrskurði Héraðsdóms til Landsréttar. Úrskurðurinn sé auðvitað mikill skellur.

„Alltaf skellur fyrir fólk sem er að ástæðulausu í gæsluvarðhaldi að þurfa að sæta áfram gæsluvarðhaldi. En það verður bara að takast á við þetta og reyna að hnekkja þessu fyrir Landsrétti. Það er óskandi að það gangi.“


Tengdar fréttir

Fara fram á á­fram­haldandi gæslu­varð­hald

Héraðssaksóknari mun fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka. Mennirnir hafa verið í gæsluvarðhaldi í sjö vikur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×