Handbolti

Njósnamál komið upp á EM kvenna í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jelena Lavko ræðir við þjálfara sinn í landsleik með Serbíu. Hún er mjög ósátt með njósnir mótherja sinna.
Jelena Lavko ræðir við þjálfara sinn í landsleik með Serbíu. Hún er mjög ósátt með njósnir mótherja sinna. Getty/Andre Weening

Evrópumót kvenna í handbolta er í fullum gangi en það er mikið hitamál komið upp á milli tveggja þjóða úr gömlu Júgóslavíu.

Serbar eru dottnir úr leik en eru mjög ósáttir með að hafa uppgötvað það að það hafi verið njósnað um liðið þeirra á lokaðri æfingu fyrir mikilvægan leik.

Serbía og Slóvenía spiluðu hreinan úrslitaleik um sæti í milliriðli í lokaumferð riðilsins. Liðin voru í riðli með Norðurlandaþjóðunum Danmörku og Svíþjóð.

Sportbladet í Svíþjóð fjallar um málið.Instagram

Slóvenía vann leikinn 27-24 og sendi því Serbíu heim af EM.

Eftir leikinn sökuðu Serbar Slóvena um að taka upp myndband af lokaðri æfingu sinni fyrir leikinn en sú æfing fór fram í sama sal og liðin mættust síðan daginn eftir. Sportblaðið í Svíþjóð fjallar um málið og vísar þá í umfjöllun í serbneskum miðlum.

Jelena Lavkov, fyrirliði Serbíu, ræddi þetta mál við serbneska fjölmiðilinn Novosti. Hún segir að Serbar hafi fundið farsíma og iPad í höllinni sem voru stillt til að taka upp æfinguna.

Blaðið sýndi líka mynd af þessum njósnabúnaði þar sem pappaspjald var til að fela símann fyrir utan gatið fyrir myndavélina. Serbarnir fundu þessar upptökugræjur og tóku mynd af henni.

„Þetta var sett upp til að mynda okkur,“ sagði Jelena Lavkov.

Serbarnir voru reyndar í ágætum málum enda 15-13 yfir í hálfleik og komst þremur mörkum yfir í upphafi þess síðari. Slóvenarnir tóku þá öll völd og skoruðu fimm mörk í röð og voru síðan mest komnir fimm mörkum yfir í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×