Erlent

Rússar þykist fara frá Kher­son til að lokka her­menn í gildru

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin er af eyðileggingu í þorpinu Zorya nærri Kherson-borg.
Myndin er af eyðileggingu í þorpinu Zorya nærri Kherson-borg. Getty/Aktas

Yfirvöld í Úkraínu segja að Rússar beiti blekkingum í Kherson með því að þykjast hörfa frá borginni. Með blekkingunni ætli þeir að lokka hermenn í gildru og sitja fyrir þeim.

Natalia Humeniuk, talsmaður úkraínska hersins, sagði í viðtali fyrr í dag að herinn teldi brögð vera í tafli.

„Rússneskir hermenn reyna stöðugt að telja öllum trú um að þeir séu að hörfa; á sama tíma og hlutlægar staðreyndir – gögn – benda til annars. Við teljum Rússa vera að beita blekkingum og þetta sé í raun ein stór tálsýn. Markmiðið sé að lokka Úkraínumenn í bardaga inni í borginni,“ segir Humeniuk samkvæmt CNN, sem leggur áherslu að ummæli talsmannsins hafi ekki verið staðfest af óháðum aðilum.

Einn af leppstjórum Rússa í Kherson-héraði sagði í vikunni að líklegt væri að rússneskir hermenn myndu hörfa frá vesturbakka Dniproár og þar með Kherson-borg; einu héraðshöfuðborginni sem Rússar hafa náð tökum á frá því innrás þeirra hófst í febrúar. Misvísandi fregnir hafa borist af mögulegu undanhaldi Rússa frá svæðinu.

Rússar eru sagðir hafa verið að flytja hermenn á brott en á sama tíma virðist þeir hafa sent nýja hermenn á vesturbakkann auk hergagna. Þar að auki eru Rússar sagðir hafa byggt upp varnir í kringum Kherson. Gengi blekking Rússa eftir er líklegt að úkraínskir hermenn yrðu innikróaðir á austurbakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×