Körfubolti

Pétur: Tíu stiga forskot er ekki neitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur Ingvarsson hrósaði liðsheild Breiðabliks eftir leik.
Pétur Ingvarsson hrósaði liðsheild Breiðabliks eftir leik. vísir/vilhelm

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var nokkuð sáttur eftir sigur sinna manna á ÍR, 87-105, í Skógarselinu í kvöld.

„Við gerðum nóg til að klára þetta. Við vissum að þeir væru miklu betri en þeir hafa spilað, þeir eru með nýjan Kana og orka í þessu hjá þeim. Þeir voru líka á heimavelli og hitta betur þar,“ sagði Pétur við Vísi eftir leik.

„Við stefndum alltaf á að vera með tíu stiga forskot til að hafa eitthvað til að hlaupa upp á undir lokin þegar þeir tækju sitt síðasta áhlaup.“

ÍR minnkaði muninn í tvö stig seint í 3. leikhluta en Breiðablik svaraði með ellefu stigum í röð og náði forskoti sem liðið lét ekki af hendi.

„Liðin spila svolítið hratt og stigin koma í skorpum. Tíu stiga forskot er ekki neitt, bara þrjár sóknir, nokkrir þristar og þú ert kominn aftur inn í leikinn. Við vissum það alveg og þess vegna reyndum við að vera með tíu stiga forskot eins lengi og hægt væri,“ sagði Pétur.

Honum fannst góður heildarbragur á Blikum í leiknum í kvöld enda skoruðu sex leikmenn liðsins tólf stig eða meira.

„Ég var ánægður með liðsheildina og liðið. Það var aðalmálið. Menn gerðu þetta saman. Ég er með fullt af fínum leikmönnum og þótt þú eigir kannski ekki góðan leik á maðurinn við hliðina kannski ágætis leik og getur hjálpað þér að vinna leikinn,“ sagði Pétur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×