Erlent

Segir af sér sem for­maður Radika­le Ven­stre

Atli Ísleifsson skrifar
Sofie Carsten Nielsen hefur átt sæti á danska þinginu frá 2011 og verið Formaður Radikale Vestre frá árinu 2020.
Sofie Carsten Nielsen hefur átt sæti á danska þinginu frá 2011 og verið Formaður Radikale Vestre frá árinu 2020. EPA

Sofie Carsten Nielsen hefur sagt af sér sem formaður miðjuflokksins Radikale Venstre.

Carsten Nielsen greindi frá þessu á stuttum blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll upp úr hádegi í dag. Hún sagðist ekki enn vera með að hreinu hvort hún hafi verið endurkjörin sem þingmaður en að ljóst væri að umboð hennar væri of veikt til að halda áfram sem formaður.

Radikale Venstre er hluti af vinstriblokkinni í dönskum stjórnmálum en flokkurinn tapaði miklu fylgi í kosningunum í gær. Hlaut flokkurinn 3,8 prósent atkvæða, samanborið við 8,6 prósent í kosningunum 2019. Missti flokkurinn níu þingmenn og er nú einungis með sjö.

„Nú mun forysta Radikale koma saman og útnefna nýjan leiðtoga,“ sagði Sofie Carsten Nielsen áður en hún yfirgaf blaðamannafundinn án þess að svara spurningum blaðamanna.

Sofie Carsten Nielsen hefur átt sæti á danska þinginu frá 2011 og verið formaður Radikale Vestre frá árinu 2020. Hún var menntamálaráðherra á árunum 2014 til 2015.

Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen forsætisráðherra fékk 27,5 prósent atkvæða sem svarar til fimmtíu þingsæta. Flokkurinn bætti við sig tveimur sætum og styrkti stöðu sína á þinginu. Rauða blokkin er með naumasta mögulega meirihluta, níutíu þingmenn, með stuðningi annars þingmanns Færeyinga og beggja þingmanna Grænlendinga. Frederiksen hefur þó sagt að hún vilji mynda breiða ríkisstjórn, það er með flokkum sem standa utan blokka eða í hægri blokkinni.

Radikale Venstre leggur mikla áherslu á umhverfismál í sínum málflutningi, vill sjá aukinn Evrópusamruna og samræmda evrópska stefnu í málefnum hælisleitenda.


Tengdar fréttir

Mette með pálmann í höndunum eftir sviptingar á ögur­stundu

Mette Frederiksen og Jafnaðarmannaflokkur hennar styrktu stöðu sína í þingkosningunum í Danmörku í kvöld. Afar mjótt var á munum og leit í fyrstu út fyrir að Moderaterne yrðu í lykilstöðu við myndun ríkisstjórnar. Nú er ljóst að Frederiksen getur myndað meirihlutastjórn með vinstri flokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×