Skoðun

Framtíðin er okkar

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir skrifar

Sjálfstæðisflokkurinn býður annað hvert ár upp á stærstu og flottustu lýðræðisveislu Íslands þegar landsfundur flokksins er haldinn. Um helgina koma saman um 2.000 fulltrúar flokksins til að móta stefnu og sýn flokksins til framtíðar. Á landsfundi getur allt gerst. Allir hafa atkvæðisrétt, öll atkvæði vega jafnt og allir eru kjörgengir til hvers konar trúnaðarstarfa innan félaga og flokksins í heild.

Það stefnir í sögulegan landsfund þar sem tilkynnt hefur verið nokkuð óvænt um mótframboð til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins. Landsfundarfulltrúum bíður því það mikla ábyrgðarhlutverk að velja á milli þeirra. Bjarni Benediktsson hefur setið á Alþingi síðan 2003 og hefur verið farsæll formaður flokksins síðan 2009. Guðlaugur Þór var einnig kjörinn á þing árið 2003 og hefur verið í forystu flokksins, sem oddviti og ráðherra en einnig sem ritari Sjálfstæðisflokksins um tíma.

Ábyrgð okkar landsfundarfulltrúa er mikil og við þurfum að horfa nokkra leiki fram í tímann og spyrja okkur þessara spurninga: Er Guðlaugur Þór sú breyting sem ég vil akkúrat núna? Er Guðlaugur Þór yfir höfuð raunveruleg breyting?

Sjálfstæðismenn hafa átt 9 afbragðs formenn í yfir 90 ára sögu flokksins og allir eiga þeir það sameiginlegt að vera miðaldra karlmenn. Ef sjálfstæðismenn vilja raunverulega breytingu, er sú breyting í boði akkúrat núna? Er svona nauðsynlegt að breyta bara til þess að breyta?

Sjálfstæðismenn þurfa nú að sameinast um það að klára yfirstandandi kjörtímabil með krafti undir styrkri stjórn núverandi forystusveitar. Síðan er kominn tími til að leyfa nýrri kynslóð sjálfstæðismanna –ungum konum sem körlum - að taka við keflinu og leiða flokkinn.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og situr í stjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×