Erlent

Mette gengur á fund drottningar klukkan tíu

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen fagnaði í nótt.
Mette Frederiksen fagnaði í nótt. AP

Mette Frederiksen, formaður danskra Jafnaðarmanna og forsætisráðherra, mun ganga á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar klukkan tíu að íslenskum tíma. Þar munu þær ræða niðurstöður þingkosninganna sem fram fóru í Danmörku í gær.

Frederiksen benti á að meirihluti sé fyrir því að henni verði falið að mynda ríkisstjórn og eru allar líkur á að drottningin muni Frederiksen formlegt umboð til þess.

Rauða blokkin, undir forystu Frederiksen, hlaut naumasta mögulega meirihluta – níutíu þingmenn – ef taldir eru með annar af tveimur nýjum þingmönnum Færeyinga og báðir þingmenn Grænlendinga.

Frederiksen og Jafnaðarmannaflokkurinn töluðu fyrir því í kosningabaráttunni að mynduð yrði ný „breið“ ríkisstjórn. Frederiksen endurtók það í nótt, eftir að niðurstaða lá fyrir, að fráfarandi ríkisstjórn myndi fara frá og að hún myndi ganga á fund drottningar. Áfram verði stefnt að „breiðri stjórn“, það er að leitast yrði eftir því að mynda stjórn með flokkum sem standa utan rauðu blokkarinnar. Hún sagði það vera það sem kæmi Danmörku best.

Fylgi og skipting þingsæta (innan sviga er fylgi í kosningunum 2019 og svo breyting á þingsætum frá fyrri kosningum):

  • Jafnaðarmannaflokkurinn 27,5% (25,9%), 50 (+2)
  • Venstre 13,3% (23,4%), 23 (-20)
  • Moderaterne 9,3% (nýtt framboð), 16
  • Sósíalíski þjóðarflokkurinn 8,3% (7,7%), 15 (+1)
  • Danmerkurdemókratar 8,1% (nýtt framboð), 14
  • Frjálslynda bandalagið 7,9% (2,3%), 14 (+10)
  • Íhaldsflokkurinn 5,5% (6,6%), 10 (-2)
  • Einingarlistinn 5,2% (6,9%), 9 (-4)
  • Radikale Venstre 3,8% (8,6%), 7 (-9)
  • Nýir borgaralegir 3,7% (2,4%), 6 (+2)
  • Valkosturinn 3,3% (3,0%), 6 (+1)
  • Danski þjóðarflokkurinn 2,6% (8,7%), 5 (-11)

Jafnaðarmannaflokkur Frederiksen forsætisráðherra fékk 27,5 prósent atkvæða sem svarar til fimmtíu þingsæta. Flokkurinn bætti við sig tveimur sætum og styrkti stöðu sína á þinginu.

Moderaterne, flokkur Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra, hlaut 9,3 prósent atkvæða í kosningunum í gær og tryggði flokkurinn sér sextán þingsæti.


Tengdar fréttir

Mette með pálmann í höndunum eftir sviptingar á ögur­stundu

Mette Frederiksen og Jafnaðarmannaflokkur hennar styrktu stöðu sína í þingkosningunum í Danmörku í kvöld. Afar mjótt var á munum og leit í fyrstu út fyrir að Moderaterne yrðu í lykilstöðu við myndun ríkisstjórnar. Nú er ljóst að Frederiksen getur myndað meirihlutastjórn með vinstri flokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×