Viðskipti innlent

Aðstoðarritstjóra DV sagt upp

Bjarki Sigurðsson skrifar
Aðstoðarritstjóra DV var sagt upp störfum í gær.
Aðstoðarritstjóra DV var sagt upp störfum í gær. Vísir/Vilhelm

Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra DV, var í gær sagt upp störfum. Uppsögnin var hluti af skipulagsbreytingum að sögn aðalritstjóra fjölmiðla Torgs.

Í gær var tveimur blaðamönnum hjá fjölmiðlum í eigu Torgs sagt upp. Annars vegar er um að ræða aðstoðarritstjóra DV, Erlu Hlynsdóttur, og hins vegar nýráðinn blaðamann hjá Fréttablaðinu. Sigmundur Ernir Rúnarsson, aðalritstjóri fjölmiðla Torgs, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu er búið að leggja stöðu aðstoðarritstjóra DV niður. Ritstjóri blaðsins er enn Björn Þorfinnsson og fréttastjóri Ágúst Borgþór Sverrisson. 

„Þetta eru skipulagsbreytingar og eðlilegt aðhald,“ segir Sigmundur Ernir. Hann segir engar stórar breytingar vera í vændum þó alltaf séu einhverjar breytingar í gangi hjá fjölmiðlum. 

Erla hafði starfað hjá DV síðan í apríl árið 2020 þegar hún var ráðin tímabundið sem fréttastjóri þar. Seinna meir var hún gerð að aðstoðarritstjóra fjölmiðilsins. Einnig hefur Erla starfað fyrir fleiri fjölmiðla, til dæmis Stöð 2 og Fréttatímanum. 

Erla hefur þrisvar sigrað gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Árið 2012 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi brotið grein mannréttindasáttmálans með því að gera Erlu ábyrga fyrir ummælum viðmælanda síns um eiganda skemmtistaðarins Strawberries og árið 2014 braut ríkið sömu grein þegar Erla var dæmd fyrir ummæli sem höfð voru eftir viðmælenda í frétt um Byrgið. Árið 2015 braut ríkið aftur á sömu grein þegar Erla var dæmd fyrir umfjöllun um kókaínsmyglara. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×