Erlent

Skutu leynilegum gervihnöttum út í geim með öflugustu eldflauginni

Samúel Karl Ólason skrifar
Falcon Heavy á leið á skotpall í Flórída.
Falcon Heavy á leið á skotpall í Flórída. SpaceX

Starfsmenn SpaceX ætla í dag að skjóta svokallaðri Falcon Heavy-eldflaug á loft frá Flórída. Það er öflugasta eldflaugin sem notast er við þessa dagana og verður hún notuð til að skjóta tveimur gervihnöttum út í geim fyrir Bandaríkjaher, auk annarra gervihnatta.

Uppfært: Geimskotið heppnaðist vel. Báðar eldflaugarnar lentu í heilu lagi í Flórída og farmurinn virtist rata á sinn stað. SpaceX sagði þó lítið frá því vegna þeirrar leyndar sem hvílir yfir farminum.

Gervihnettirnir eiga að fara mjög langt út í geim og eiga þeir að svífa yfir jörðinni í meira en þrjátíu þúsund kílómetra hæð, samkvæmt frétt SpaceFlightNow. Leynd hvílir yfir gervihnöttunum sem verið er að skjóta út í geim fyrir herinn.

Falcon Heavy er 70 metra há og í rauninni er fyrsta stig hennar gert úr þremur Falcon 9 eldflaugum. Það eru eldflaugar sem SpaceX hefur notað um árabil og eru hannaðar til að snúa aftur til jarðar og lenda, svo hægt sé að nota þær aftur.

Falcon 9 eldflaugarnar hafa reynst SpaceX gífurlega vel en þetta er fimmtugasta geimskot fyrirtækisins á þessu ári.

Þetta er í fjórða sinn sem SpaceX skýtur Falcon Heavy á loft.

Tvær af eldflaugum Falcon Heavy munu lenda aftur í Flórída eftir geimskotið í dag. Ekkert verður sýnt frá efra stigi eldflaugarinnar vegna þeirrar leyndar sem hvílir yfir gervihnöttunum. Skömmu eftir flugtak er hægt á miðjueldflauginni en hún heldur fluginu áfram þegar hinar tvær hafa losnað frá.

Til stendur að skjóta eldflaugunum á loft klukkan 13:41 að íslenskum tíma. Gangi það ekki eftir, stendur til að reyna á sama tíma á morgun. Samkvæmt nýjustu upplýsingum er þó ólíklegt að veðrið muni þvælast fyrir.

Mikil þoka er á skotstaðnum í Flórída.

Fylgjast má með geimskotinu í spilaranum hér að neðan. Útsending SpaceX hefst 13:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×