Fótbolti

Úkraína vill að FIFA hendi Íran út af HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar hefst eftir aðeins þrjár vikur.
Heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar hefst eftir aðeins þrjár vikur. Getty/Nicola Sua

Knattspyrnusamband Úkraínu hefur sett pressu á Alþjóða knattspyrnusambandið að henda íranska landsliðinu út af heimsmeistaramótinu í Katar en mótið hefst eftir aðeins tuttugu daga.

Úkraína sendi inn formlega beiðni í gær um að Íran fengi ekki að vera með á heimsmeistaramótinu.

Ástæða þess að Úkraínumenn krefjast brottvísunar eru mannréttindabrot í landinu sem og að þeir saka Írana um að láta Rússa frá vopn sem þeir nýta í innrás sinni í Úkraínu.

Þetta ákall frá Úkraínu kemur þremur vikum fyrir fyrsta leik Írana sem er á móti Englandi í B-riðli en í riðlinum eru einnig Bandaríkin og Wales. Forráðamenn úkraínska sambandsins báðu þó ekki um að fá að koma inn á mótið í staðinn fyrir Íran.

Úkraína datt út á móti Wales í umspili í júní síðastliðinn.

Shakhtar Donetsk, stærsta félagið í Úkraínu, hafði lagt inn svipaða beiðni í síðustu viku en forráðamenn þar vildu að Úkraína kæmi inn í staðinn fyrir Íran.

Rússland og Íran hafa bæði hafnað því að rússneski herinn sé að nota drónasprengjur frá Íran í árásum sínum.

FIFA hefur ekki svarað beiðni Úkráinu en sambandið leggur það ekki í vana sinn að banna knattspyrnusambönd vegna ákvarðana í hernaði sem eru teknar af stjórnvöldum í viðkomandi löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×