Erlent

Neyðarskömmtun víða í gildi eftir umfangsmiklar loftárásir Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks leitaði skjóls í neðanjarðarlestarkerfinu í Kænugarði á meðan loftárásirnar stóðu yfir.
Fjöldi fólks leitaði skjóls í neðanjarðarlestarkerfinu í Kænugarði á meðan loftárásirnar stóðu yfir. epa/Andrii Nesterenko

Loftvarnaflautur fóru í gang og sprengingar heyrðust víða um Úkraínu í morgun. Íbúar voru hvattir til að leita skjóls, meðal annars í Kænugarði og á að minnsta kosti tíu öðrum svæðum.

Varnarmálayfirvöld í landinu sögðust hafa skotið niður 44 af um það bil 50 eldflaugum Rússa og myndskeið hafa birst á samfélagsmiðlum sem virðast gefa til kynna að nokkrum þeirra hafi verið miðað á skotmörk í höfuðborginni.

Aðrar náðu áfangastað en á svæðinu umhverfis Kænugarð urðu meðal annars skemmdir á orkuinnviðum. Oleksiy Kuleba, ríkisstjóri Kænugarðs, sagði að minnsta kosti einn látinn. Gera mætt ráð fyrir neyðarskömmtum rafmagns vegna árásanna.

Eldflaugunum var skotið af Tu-90 og Tu-60 þotum rússneska hersins. Þær hæfðu skotmörk í Kænugarði, Zaporizhzhia, Kharkiv, Mikolaiv, Lviv, Zhytomyr, Kirovohrad og Chernivtsi.

Að sögn orkumálaráðherra Úkraínu, Herman Halushchenko, beindust árásirnar meðal annars gegn vatnsaflsvirkjunum. Fregnir herma að gripið hafi verið til neyðarskömmtunar rafmagns víðar en í Kænugarði í kjölfar árásanna.

Tólf skip hlaðin kornvöru lögðu úr höfn í Úkraínu í morgun, jafnvel þótt Rússar hafi dregið sig frá samkomulaginu um öruggan útflutning úr landinu. Tyrkir hafa lýst yfir áframhaldandi stuðningi við samkomulagið en Frakkar eru sagðir leita leiða til að efla útflutning landleiðina, um Pólland eða Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×