Fótbolti

„Margir sögðu að ég ætti verðlaunin ekki skilið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophia Smith hjá Portland Thorns með verðlaunin sem besti leikmaður úrslitaleiksins í NWSL deildinni.
Sophia Smith hjá Portland Thorns með verðlaunin sem besti leikmaður úrslitaleiksins í NWSL deildinni. Getty/Ira L. Black

Portland Thorns varð um helgina bandarískur meistari í fótbolta kvenna eftir sigur á Kansas City Current í úrslitaleiknum. Besti leikmaðurinn stóð undir nafni á stóra sviðinu.

Sophia Smith, framherji Portland, var kosin mikilvægasti leikmaður deildarinnar fyrir úrslitaleikinn. Hún hélt upp á þau verðlaun með því að koma liði sínu yfir í upphafi úrslitaleiksins.

Smith vakti athygli fyrir að fagna eins og Michael Jordan gerði svo eftirminnilega á sínum tíma. Þessi 22 ára stelpa fagnaði markinu með því að yppta öxlum.

Jordan gerði það á sínum tíma eftir sjötta þristinn sinn fyrir leik þar sem var talað um að hann væri ekki nógu góð þriggja stiga skytta.

Smith fannst ástæða til að fagna svona eftir að hafa heyrt gagnrýni á það úr mörgum áttum að hún ætti ekki skilið að vera kosin mikilvægasti leikmaður NWSL deildarinnar.

Eftir leikinn var bandaríska landsliðskonan spurð út í það hvernig hún fagnaði markinu sínu.

„Margir sögðu að ég ætti verðlaunin ekki skilið svo þetta var bara mitt svar,“ sagði Sophia Smith. Hún var síðan líka kosin besti leikmaður úrslitaleiksins.

Hún var aðeins annar leikmaður í sögu deildarinnar sem fylgir því eftir að fá þessi stóru verðlaun með því að skora í úrslitaleik um titilinn. Hún er líka sú yngsta til að skora í úrslitaleik um bandaríska titilinn.

Smith var valin fyrst í nýliðavalinu 2020 og er þegar búin að spila 25 landsleiki fyrir heimsmeistara Bandaríkjanna þar sem hún hefur skorað ellefu mörk. Hún skoraði fimmtán mörk fyrir Thorns á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×