Enski boltinn

„Enginn veit hvað hefði gerst hefði Er­ling spilað“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep var mjög ánægður með sigurinn og að vera kominn á toppinn.
Pep var mjög ánægður með sigurinn og að vera kominn á toppinn. EPA-EFE/TIM KEETON

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, var ánægður með 1-0 sigur sinna manna á Leicester City í dag. Kevin De Bruyne steig upp í fjarveru Erling Braut Håland en framherjinn var fjarri góðu gamni í dag. Pep sagði að enginn geti spáð fyrir um hvernig leikurinn hefði spilast hefði Norðmaðurinn verið með.

„Erling spilaði gegn Bournemouth sem var með svipað upplegg og Leicester í dag, fimm í vörn, fjóra á miðju og svo var Jamie Vardy að koma niður á miðjuna. Hann átti erfitt þá, það er erfitt að spila gegn liðum með þetta upplegg,“ sagði sá spænski en framherjinn skoraði ekki gegn Bournemouth fyrr á leiktíðinni.

„Það mikilvægasta í svona leikjum er að verða ekki pirraður þegar þú sækir. Ef þú færð á þig mark þá er þarftu að klífa hæð sem er varla hægt að klífa. Svo leikmenn mega ekki verða pirraðir og gefa ódýrar aukaspyrnur eða hornspyrnur.“

„Við unnum en mögulega þarf bara eina hornspyrnu, eitt fast leikatriði, og sigurinn verður að jafntefli.“

„Þetta er risastór sigur því Leicester á útivelli er alltaf erfiður leikur. Við mættum þeim á þeirra besta augnabliki á tímabilinu. Það er því mjög gott að vera komnir á topp deildarinnar.“

„Á móti Sevilla? Nei. Aðallega því við erum komnir áfram. Ég sé til á móti Fulham. Við höfum sjö daga þangað til, ég sé til,“ sagði Pep að endingu aðspurður hvenær Håland myndi snúa aftur í liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×